mobile navigation trigger mobile search trigger
05.07.2025

Hernámsdagurinn endurvakinn í blíðunni á Reyðarfirði

Hernámsdagurinn fór fram á Stríðsárasafninu í dag eftir þriggja ára hlé. Greinilegt var að bæjarbúa var farið að þyrsta eftir bæjarhátíðinni því yfir 150 manns tóku þátt í hátíðarhöldunum og alls komu yfir 200 manns á safnið í dag. Veðrið lék við okkur á safninu þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá tengda hernáminu.

Hernámsdagurinn endurvakinn í blíðunni á Reyðarfirði
Ungmenni í hermannaklæðum ásamt Jónu, Þóroddi og Marc

Dagurinn hófst með sögugöngu í samstarfi við Félag harmonikkuunnenda á Norðfirði en nú um helgina eru um 500 harmonikkuunnendur á landsmóti hér á Reyðarfirði. Þóroddur Helgason leiddi gönguna. Gangan var vel sótt, alls hátt í 40 þátttakendur, og enduðu þátttakendur uppi á safni þar sem þeir skoðuðu sig um.

Þóroddur endurtók svo leikinn kl. 14 og leiddi þá sögugöngu frá Molanum upp á safn ásamt ungmennum úr bænum sem klæddust hermannabúningum. Var sú ganga enn betur sótt en sú fyrri. Á móti hópnum tók svo harmonikkutónlist á safninu, lög frá stríðsárunum í samstarfi við Félag harmonikkuunnenda á Norðfirði.

Þá var boðið upp á súkkulaðiköku, Marc Alexander Fulchini frumsýndi myndbandslistaverkið hernám í Bíóbragganum, Jóna Árný bæjarstjóri bauð fólk velkomið og svo tók við dagskrá í Bragganum. Þar kynntu Jóna og Gunnar bæjarritari framtíð safnsins nú þegar teikningar fyrir svæðið eru tilbúnar og fjármögnun fyrsta áfanga lokið. Framtíðin er sannarlega björt.

Dagurinn endaði svo á því að Gauti Páll Jónsson sagnfræðingur flutti afskaplega áhugavert erindi um Íslendinga sem fórust af völdum hersins hér á landi í stríðinu. Alls hefur Gauti fundið yfir 20 dæmi um slík dauðsföll í heimildum en í erindinu sagði hann frá rannsóknum sínum og tíðarandanum.

Hernámsdagurinn 2025 var einstaklega vel heppnaður og frábært að fá að minnast hernámsins með vinum, ættingjum og nágrönnum. Vonandi sjáumst við að ári!

Fleiri myndir:
Hernámsdagurinn endurvakinn í blíðunni á Reyðarfirði
Gauti Páll fræðir gesti um Íslendinga sem létust af völdum hersins
Hernámsdagurinn endurvakinn í blíðunni á Reyðarfirði
Margmenni á planinu
Hernámsdagurinn endurvakinn í blíðunni á Reyðarfirði
Gestir hlýða andaktugir á fyrirlestur Gauta Páls

Frétta og viðburðayfirlit