Jóna Árný Þórðardóttir,bæjarstjóri ásamt forsvarmönnum björgunarsveitanna í Fjarðabyggð, undirrituðu samstarfssamning milli Fjarðabyggðar og björgunarsveitanna í sveitarfélaginu.
Samningurinn tryggir fjárhagslegan stuðning til sveitanna, meðal annars í formi rekstrarstyrks, endurgreiðslu fasteignaskatts, framlags til námskeiða og stuðnings við leitarhunda.
Bæjarstjóri lagði áherslu á mikilvægi samstarfsins: „Við erum stolt af öflugu starfi björgunarsveitanna og með þessum samningi sýnum við í verki að við styðjum við bakið á þeim.“
Rödd björgunarsveitanna
Í Fjarðabyggð eru starfræktar fimm björgunarsveitir og eru þær öflugur hlekkur í almannavarnarkerfi Fjarðabyggðar og sinna fjölbreyttum verkefnum á landi og sjó, allt frá aðstoð í óveðrum til leitar og björgunar.
Björgunarsveitin Gerpir er starfrækt á Norðfirði. Sveitin hefur um 70 félaga á útkallsskrá og býr yfir góðum búnaði, þar á meðal snjóflóðaleitarhundi. Unglingadeildin, sem telur um 15 ungmenni er mikilvægur þáttur í framtíðarstarfinu. Öll vinna er í höndum sjálfboðaliða þar sem mikill tími fer í útköll, æfingar, námskeið, viðhald og fjáraflanir. „Stærsta áskorunin er að fá fólk til liðs við okkur og viðhalda því sem við höfum,“ segir Daði Benediktsson, formaður Gerpis, og bætir við að samningur við Fjarðabyggð tryggi áframhaldandi þekkingu og þjálfun.
Á Eskifirði starfar Brimrún með 50 félaga á útkallslista. ,,Samningurinn við Fjarðabyggð aðstoðar okkur við endurnýjun á búnaði. Við rekum líka unglingadeildina Særúnu sem gengur mjög vel – þar eru um 15 ungmenni núna og bætast fleiri við í vetur“. Sagði Kristófer Máni Gunnarsson, formaður Brimrúnar. Brimrún stendur jafnframt frammi fyrir stóru verkefni, en sveitin stendur nú fyrir söfnun á nýjum björgunarbát, sá sem fyrir er, er orðinn 35 ára gamall.
Á Reyðarfirði er björgunarsveitin Ársól með 26 félaga á útkallslista. Hjalti Þ. Ásmundsson, formaður björgunarsveitarinnar Ársól á Reyðarfirði segir að sveitin sé ávallt tilbúin til að bregðast við: „Við erum á vakt allan sólarhringinn, allt árið“. Helsta áskorunin sé nýliðun: „Það hefur fækkað þeim sem vilja gefa af sínum frítíma í þetta og það er stærsta verkefnið að snúa þeirri þróun við“.
Á Fáskrúðsfirði starfar Geisli með 40 félaga á útkallsslista. „Niðurfelling fasteignagjalda er einfaldlega réttlætismál. Við erum að spara samfélaginu miklar fjárhæðir með okkar starfi,“ segir Grétar Helgi, formaður Geisla og bendir á að skortur á unglingastarfi hafi áhrif á nýliðun. Hjá Geisla hefur verið starfrækt unglingadeild en því miður er hún ekki starfandi í dag. Er ástæðan einna helst skortur á sjálboðaliðum til að sinna því starfi. Er það helsta áskorunin í þeirra starfi, er nýliðun. Grétar segir ennfremur að þetta sé helsta áskorun allra sveita það sé nýliðun og að fá ungt fólk í sveitirnar. Þær sveitir sem geta haldið úti unglingastarfi, þær standa betur að vígi.
Á Breiðdalsvík heldur björgunarsveitin Eining úti öflugu starfi með æfingum og virku unglingastarfi. Á útkallslista sveitarinnar eru 20 félagar. Hrefna I. Melsteð, formaður Einingar: „Samningurinn skiptir okkur miklu máli þar sem við erum lítil sveit með takmarkaða möguleika til fjáröflunar. Við erum með snjóflóðaleitarhund sem er mikilvægur öryggisþáttur og stolt af öflugu unglingastarfi með um 15 ungmenni“.
Samstaða og framtíðarsýn
Samningurinn gildir til ársloka 2027 og undirstrikar sameiginlega framtíðarsýn sveitarfélagsins og björgunarsveitanna um öflugt samstarf í þágu öryggis og velferðar íbúa.