mobile navigation trigger mobile search trigger
26.05.2025

Ný málstefna Fjarðabyggðar leggur áherslu á íslensku

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt nýja málstefnu sem markar skýra stefnu sveitarfélagsins í málnotkun og þjónustu við íbúa og aðra aðila. Meginmarkmið stefnunnar er að efla, vernda og tryggja notkun íslenskrar tungu í öllu starfi og þjónustu sveitarfélagsins, auk þess sem hún viðurkennir mikilvægi fjöltyngis og aðgengis fyrir alla íbúa.

Ný málstefna Fjarðabyggðar leggur áherslu á íslensku

Í stefnunni er lögð áhersla á að öll þjónusta sveitarfélagsins fari fram á íslensku og að starfsfólk geti aðstoðað þá sem ekki skilja íslensku, meðal annars með túlkun eða leiðbeiningum. Sérstök áhersla er lögð á að efni sem gefið er út á vegum sveitarfélagsins, hvort sem það er á prenti, rafrænt eða í öðrum miðlum, skuli ávallt vera til á íslensku. Ef efni er birt á erlendum tungumálum, skal það einnig vera fáanlegt á íslensku, til að tryggja að allir hafi aðgang að sömu upplýsingum.

Málfarsleg gæði skipta einnig miklu máli. Starfsfólk sveitarfélagsins er hvatt til að nota vandað, skýrt og gott mál í öllum samskiptum. Flókin fagheiti, skammstafanir og ónákvæmt málfar skulu forðast til að tryggja gagnsæi og góðan skilning.

Þá er einnig tekið mið af aðgengismálum og því tryggt að efni sé framsett á þann hátt að það nýtist fólki með skerta sjón eða lestrargetu, m.a. með talgervlum og blindraletri. Þetta er í samræmi við alþjóðlega staðla um aðgengi. Þess má geta að við uppsetningu á nýrri heimasíðu fyrir sveitarfélagið verður nú aðgengilegt vefþula. 

Stefnan tekur einnig mið af breyttum samfélagsaðstæðum og margbreytileika íbúa. Þannig er litið til þess að stuðla að virðingu fyrir öðrum tungumálum og menningarheimum án þess að draga úr mikilvægi íslenskunnar sem aðaltungumáls sveitarfélagsins.

Hægt er að nálgast málstefnuna hér: Málstefna Fjarðabyggðar

Frétta og viðburðayfirlit