mobile navigation trigger mobile search trigger
16.05.2025

Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlýtur Eyrarrósina 2025

Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hefur hlotið Eyrarrósina 2025, virt menningarverðlaun sem veitt eru framúrskarandi menningarverkefnum utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta er mikill heiður fyrir menningarlífið í Fjarðabyggð og viðurkenning á því mikilvæga hlutverki sem Sköpunarmiðstöðin gegnir í samfélaginu. 

Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlýtur Eyrarrósina 2025
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlaut Eyrarrósina 2025

Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Alþýðuhúsinu á Siglufirði þann 15. maí. Hr. Björn Skúlason, maki forseta Íslands og verndari Eyrarrósarinnar, afhenti viðurkenninguna. Una B. Sigurðardóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Sköpunarmiðstöðvarinnar, tók á móti verðlaununum og viðurkenningarfé að upphæð 2.500.000 kr. 

Í umsögn valnefndar kom m.a. fram að „Sköpunarmiðstöðin er hjarta samfélagsins á Stöðvarfirði og afar mikilvægur samverustaður. Með framúrskarandi og framsækinni starfsemi styrkir hún samfélag sitt með sjálfbærri starfsemi sem hefur ómetanlegt gildi fyrir nærumhverfi sitt.“ 

Sköpunarmiðstöðin hefur verið burðarás í menningar- og samfélagslífi Fjarðabyggðar um árabil. Með opnu rými fyrir skapandi greinar, listamenn, gestavinnustofur og ýmis samfélagsverkefni hefur miðstöðin skapað vettvang fyrir nýsköpun, tengslamyndun og samfélagsþróun, bæði á staðnum og út á við. „Það er mér einstaklega ljúft að taka við þessari viðurkenningu fyrir hönd Sköpunarmiðstöðvarinnar og ég finn fyrir djúpu þakklæti. Hún er blíður koss á þreytta kinn, orð sem hvetja og hönd sem hlýjar,“ sagði Una B. Sigurðardóttir við afhendinguna. 

Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar voru veitt verkefnunum Tankarnir á Raufarhöfn, Afhverju Ekki í Þingeyjarsveit og Gletta á Borgarfirði Eystri. Fjarðabyggð óskar Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu og hlakkar til að fylgjast með áframhaldandi blóma í menningarstarfi í sveitarfélaginu.

Fleiri myndir:
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlýtur Eyrarrósina 2025
Una B. Sigurðardóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Sköpunarmiðstöðvarinnar, tók á móti verðlaununum. Hr. Björn Skúlason, maki forseta Íslands og verndari Eyrarrósarinnar, afhenti viðurkenninguna

Frétta og viðburðayfirlit