mobile navigation trigger mobile search trigger
25.09.2023

Farsæld barna – þjónusta í þágu farsældar barna

Miðvikudaginn 21. september fór fram kynningarfundur Barna- og fjölskyldustofu á farsældarlöggjöfinni, fyrir starfsfólk félagsþjónustu Fjarðabyggðar, leik-, grunn-,  þjálfara  íþróttafélaga og framhaldsskóla í Fjarðabyggð, starfsfólk heilsugæslunnar og lögreglu.

Farsæld barna – þjónusta í þágu farsældar barna

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna tóku í gildi 1. janúar 2022. Lögunum er ætlað að stuðla að farsæld barna og er meginmarkmiðið að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.

Börn og foreldrar eiga að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðila. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.

Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í heilsugæslu, skóla eða félagsþjónustu. Þar geta þau fengið aðstoð við að sækja viðeigandi þjónustu, án hindrana, á öllum þjónustustigum. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málsstjóra hjá félagsþjónustu eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni.

Stigskipting þjónustu

Þjónusta fyrir börn er veitt á þremur þjónustustigum. Gott er að hafa í huga að sú þjónusta sem barnið fær er stigaskipt en ekki mál barnsins sem slíkt. Þannig geta börn fengið þjónustu á fleira en einu þjónustustigi.

  1. Fyrsta stigið skiptist í tvö undirstig – grunnþjónustu og fyrsta stigs þjónustu. Grunnþjónusta er aðgengileg öllum börnum í ungbarnavernd, leik-, grunn- og framhaldsskólum. Grunnþjónustan skiptir miklu máli fyrir farsæld barna og með því að grípa snemma inn í getum við komið í veg fyrir ýmiss konar erfileika síðar meir. Dæmi um góða þjónustu er að leggja áherslu á forvarnir, aðgerðir gegn einelti og ofbeldi og aðgerðir sem styðja jákvæðan skólabrag. Fyrsta stigs þjónustu tilheyrir einnig einstaklingsbundinn og snemmtækur stuðningur sem hefur það að markmiði að styðja við farsæld barns. Hér er um að ræða þjónustu umfram grunnþjónustu. Það er stuðningur við börn sem glíma við vægan vanda og stuðningsaðgerðir sem koma í veg fyrir að vandinn aukist og vaxi. Þar má nefna sem dæmi námsörðuleika, hegðunarvanda barns, afleiðingar eineltis og annarra áfalla eða minniháttar heilsufarsvandi.
  2. Á öðru stigi er veittur einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur en sá sem er veittur er á fyrsta stigi. Til að tryggja farsæld barns eru úrræðin sérhæfðari og þjónustan fjölbreyttari. Þjónustan á öðru stigi er veitt þegar úrræði á fyrsta stigi duga ekki til eða hafa ekki borið tilætlaðan árangur. Þörfin fyrir þjónustu á öðru stigi getur til dæmis verið tilkomin af heilsufarslegum, félagslegum eða námslegum aðstæðum. Má þar nefna sem dæmi sérdeildir eða starfsbrautir í skólum og ýmissa stuðningsþjónustu á vegum félags- og skólaþjónustu.
  3. Á þriðja stigi er veittur sérhæfður stuðningur til að tryggja að farsæld barns verði ekki hætta búin. Barn sem nýtur þjónustu á þessum stigi hefur að jafnaði flókinn og fjölþættan vanda og mikla umönnunarþörf. Barnið er þá í aðstæðum þar sem skortur á viðeigandi stuðningi og úrræðum getur haft alvarlegar afleiðingar og ógnað heilsu þess og þroska. Má þar nefna sem dæmi vistunarúrræði á grundvelli barnaverndarlaga, umfangsmikinn og fjölþættan stuðning við fötluð börn og langvarandi sjúkrahúsdvöl barna.

Markmiðið er að sem flest börn fái viðeigandi þjónustu á fyrsta stigi og að þjónusta þess stigs sé það öflug að færri börn þurfi þá umfangsmiklu þjónustu sem á sér stað á öðru og þriðja stigi.

 

Fleiri myndir:
Farsæld barna – þjónusta í þágu farsældar barna

Frétta og viðburðayfirlit