mobile navigation trigger mobile search trigger
18.03.2016

Fjarðabyggð hlýtur gullmerki jafnlaunaúttektar PwC

Fjarðabyggð hlýtur gullmerki jafnlaunaúttektar PwC sem viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur, þar sem launamunur kynja er innan viðmiðunarmarka samkvæmt niðurstöðum jafnlaunaúttektar á launagögnum sveitarfélagsins.

Fjarðabyggð hlýtur gullmerki jafnlaunaúttektar PwC

PwC veitir fyrirtækjum og stofnunum Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC fyrir framúrskarandi árangur, ef launamunur bæði grunnlauna og heildarlauna er undir 3,5%. Viðurkenningin er til marks um staðfastan vilja þeirra sem gullmerkið hljóta, til að stuðla að launajafnrétti og skapa með því móti eftirsóknarverðan vinnustað.

Afar vel tókst til við að greina launadreifingu í greiningunni á grundvelli þeirra ólíku breyta sem notaðar voru. Skýringargildi launadreifingar er sérlega hátt, eða 92% og er því aðeins 8% launadreifingarinnar sem er óútskýrð. Óvissa í túlkun niðurstaðna er því hverfandi.

Jafnlaunaúttekt PwC byggir á línulegri fjölbreytuaðhvarfsgreiningu. Sá launamunur sem situr eftir (óútskýrður launamunur) þegar tekið hefur verið tillit til áhrifa tiltekinna breyta á laun hjá Fjarðabyggð, er skilgreindur sem ígildi kynbundins launamunar.

Í greiningunni var stuðst við eftirtaldar breytur: aldur, starfsaldur, menntun, starfshópur, staða gagnvart jafningjum, staða í skipuriti, hærra settir við sameiningu sveitarfélaga, bakvaktarskylda og ábyrgð (starfólk, fjármál, verkefni & búnaður). Einnig var tekið tillit til áhrifa heildarvinnustunda þegar var gerð sambærileg greining á heildarlaunum.

Að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra, staðfesta niðurstöður úttektarinnar að konur og karlar sem starfa hjá sveitarfélaginu njóti launajafnréttis. „ Sveitarfélagið getur svo sannarlega verið stolt af þessum árangri sem má að mínu mati rekja, að stórum hluta til þess, að launastefnu sveitarfélagsins er fylgt fast eftir af stjórnendum. Slík festa í launamálum stuðlar að launajafnrétti og gerir sveitarfélagið að eftirsóttum vinnustað til framtíðar.

Frétta og viðburðayfirlit