mobile navigation trigger mobile search trigger
21.12.2022

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar samþykkt í bæjarstjórn

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árin 2023 - 2026 var samþykkt við seinni umræðu bæjarstjórnar fimmtudaginn 15. desember með fimm atkvæðum fulltrúa Fjarðalistans og Framsóknarflokksins, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar samþykkt í bæjarstjórn

Rekstrarniðurstaða í árslok 2023 í A-hluta er jákvæð um tæplega 120 milljónir króna og í samstæðu A og B hluta um 605 milljónir króna. Það er full ástæða til að fagna þessari niðurstöðu sem er viðsnúningur frá áætlaðri útkomu ársins 2022 sem gerir ráð fyrir tapi af rekstri A-hluta upp á tæpar 143 milljónir króna. Ljóst er þó að til að þetta nái fram að ganga þurfa forsendur að ganga eftir í tekjuspám og útgjöldum sem kallar á mikinn aga að hálfu stjórnenda sveitarfélagsins. Tekjur sveitarfélagsins munu aukast á komandi ári og gert er ráð fyrir að staðgreiðslutekjur aukist um 8,6% frá árinu 2023 og er þar gert ráð fyrir loðna verði veidd, þó í minna mæli, en á árinu 2022. Er það mat sveitarfélagsins að tekjuspá þessi sé eigi að síður varfærinn. Hefur sveitarfélagið í gegnum tíðina ávallt nálgast tekjuspá fjárhagsáætlunar með varfærnum hætti og engin munur á því nú. Rétt er að hafa í huga að Fjarðabyggðarhafnir eru annar stærsti hafnarsjóður landsins og stærsta löndunarhöfn landsins í uppsjávarafurðum sem gerir það að verkum að sveiflur í veiðum og verðum slíkra afurða hafa mikil áhrif á fjárhag sveitarfélagsins. Í forsendum áætlunarinnar er gert ráð fyrir að launabreytingar verði um 5,9% og verðbólga áætluð um 5,6% á milli áranna 2022 og 2023. Er það höfuðverkefni ríkis og sveitarfélaga að ná verðbólgunni niður og skapa þannig sem mestan stöðugleika í efnahagslífinu til framtíðar litið. Heildarfjárfestingar Fjarðabyggðar munu nema 785 m. kr. Fyrir árið 2023.

Frétta og viðburðayfirlit