mobile navigation trigger mobile search trigger
20.11.2015

Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær, fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar að lokinni síðari umræðu. Á meðal þeirra breytinga sem gerðar voru á milli umræðna má nefna fjórðungs lækkun á verðlagsforsendum áætlunarinnar sem lækkuðu við það úr 4,3% í 3,2%.

Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða

Þetta þýðir að gjaldskrár- og gjaldabreytingar sem taka mið af verðlagsþróun hækka minna eða um 3,2% í stað 4,3% eins og gert var ráð fyrir í upphaflegri fjárhagsáætlun. Þessi breyting er í samræmi við endurskoðaða þjóðhagsspá, sem bæjarstjórn taldi rétt að bregðast strax við.

Fram kom í kynningu bæjarstjóra fyrir fyrri umræðu bæjarstjórnar, að veruleg óvissa hefði einkennt fjárhagsáætlunargerðina. Sú óvissa beinist aðallega að afleiðingum innflutningsbannsins til Rússlands á afkomu sveitarfélagsins, auk þess sem kjarasamningar við fjölmenna starfsmannahópa liggi enn ekki fyrir.

Af þessum sökum verður að hafa meiri fyrirvara en ella á meginniðurstöðum fjárhagsáætlunarinnar, sem gera m.a. ráð fyrir tæpum 97 millj.kr. afgangi af rekstri A-hluta bæjarsjóðs og 415 millj.kr. afgangi af rekstri A- og B-hluta. Fjárfestingar nema samtals 810 millj.kr. og verður rúmum milljarði króna varið í afborganir lána og leiguskuldbindinga gangi áætlunin eftir. Þá er gert ráð fyrir að skuldviðmið A-hluta verði 161,2% í árslok 2016 og 133,4% fyrir A- og B-hluta.

Fjallað verður nánar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar hér á vef sveitarfélagsins og í fréttabréfi sem er væntanlegt.

Sjá fjárhagsáæltun Fjarðabyggðar 2016 og 3 ára áætlun til 2019

Frétta og viðburðayfirlit