mobile navigation trigger mobile search trigger
22.04.2015

Möguleikarnir kortlagðir

KPMG og Skólastofan fengu það verkefni að kortleggja mögulegar leiðir í rekstri sveitarfélagsins. Ráðgjafafyrirtækin kynntu niðurstöður sínar í dag á fundum sem fram fóru í Neskaupstað og á Reyðarfirði.

Möguleikarnir kortlagðir
Frá kynningarfundinum í Grunnskóla Reyðarfjarðar.

Helgi Rafn Helgason, KPMG og Ingvar Sigurgeirsson, Skólastofunni, kynntu niðurstöður sínar á opnum fundum sem fram fóru í Neskaupstað og á Reyðarfirði síðdegis í dag og í kvöld.

Að því loknu sátu báðir fyrir svörum. Helgi Rafn kynnti niðurstöður KPMG ráðgjafar í forföllum Sævar Kristinssonar

Meginniðurstaða beggja aðila var afdráttarlaus um bæði rekstur og skólastarf sveitarfélagsins, sem stendur á heildina litið á traustum grunni. Mikið megi hins vegar ekki út af bera, í rekstri A-hluta bæjarsjóðs. Nefndu báðir í því sambandi gildi þess, að sveitarfélagið hafi farið í verkefnið á meðan borð er fyrir báru og svigrúm til staðar fyrir vel ígrundaðar aðgerðir.

Þá kom fram, að íbúarfundirnir sem fram fóru í janúar sl. hafi skilað mikilvægu framlagi. Hver fundur skilaði um 50-70 hugmyndum og tillögum og reyndust áherslur í mörgum tilvikum svipaðar á milli bæjarkjarna.

Markmið verkefnisins Fjarðabyggð til framtíðar er, eins og áður hefur komið fram, að stuðla að auknum stöðugleika í rekstri sveitarfélagsins. Hlutverk ráðgjafafyrirtækjanna KPMG og Skólastofunnar var að greina, í samráði við íbúa, hvernig gera megi rekstur Fjarðabyggðar hagkvæmari og skilvirkari án þess að rýra gæði skólastarfs, sem er stærsti rekstrarliður sveitarfélagsins.  

Fundirnir marka þau þáttaskil í verkefninu, að undirbúningsvinnu þess er lokið og kemur því næst til kasta nefnda sveitarfélagsins og heldur bæjarráð Fjarðabyggðar utan um þá vinnu. Tímamörk hafa ekki verið fastsett en stefnt er að því, að bæjarstjórn taki til afgreiðslu endanlegar tillögur í maí eða júní, allt eftir því hvernig starfinu miðar. 

Að kynningum lokum stýrði Páll Björgvin Guðmundsson fyrirspurnum og umræðum.

Tengd umfjöllun

Uppfært 24.04.2015, kl. 11:30

Fleiri myndir:
Möguleikarnir kortlagðir
Möguleikarnir kortlagðir
Möguleikarnir kortlagðir

Frétta og viðburðayfirlit