mobile navigation trigger mobile search trigger
02.09.2015

Rannsóknir á Drekasvæðinu að hefjast

Rannsóknarskipið Oceanic Challenger kom til Reyðarfjarðarhafnar í dag ásamt smærra dráttarskipi. Skipin halda út á Drekasvæðið eftir stutta viðkomu, en rannsóknarskipið er sérhæft til jarð- og jarðeðlisfræðilegra rannsókna vegna olíu- og gasvinnslu.

Rannsóknir á Drekasvæðinu að hefjast
RAnnsóknarskipið Oceanic Challenge í Reyðarfjarðarhöfn í dag. (Ljósm. Pétur Sörensson)

Næstu vikur verða skipin við tvívíðar bergmálsmælingar á jarðlögum undir sjávarbotninum. Rannsóknarstarfið leiðir kínverska ríkisolíuleitarfyrirtækið CNOOC, sem er ásamt Ekon Energy og norska ríkisolíufyrirtækisins Petoro handhafi að olíuleitarleyfi á svæðinu. Það er svo til marks um umfang leitarstarfsins að kostnaður vegna þessarar upphafslotu nemur um milljarði króna. 

Lofi niðurstöður góðu, verður þeim fylgt eftir með þrívíðum mælingum og gæti undirbúningur að olíuborununum hafist í framhaldi af því árið 2018 eða 2019, að sögn Heiðars Guðjónsonar, stjórnarformanni Eykon Energy, í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Einnig kom fram að með hliðsjón af lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu og samdrætti innan olíuleitar á undanförnum misserum, megi heita ljóst að Drekasvæðið sé talið með fýsilegustu leitarkostum sem völ er á.

Oceanic Challenger kom til hafnar í dag m.a. vegna lögbundinnar úttektar Orkustofnunar á búnaði þess, sem fara verður fram áður en mælingar geta hafist. Alþjóðlega rannsóknarfyrirtækið CGG gerir skipið út, sem líkja má við fljótandi rannsóknarstofu, en af 60 manna áhöfn skipsins starfar um helmingur við vísindalegar rannsóknir um borð. Auk þess að kortleggja nýtanlegar olíu- og gaslindir, starfar CGG við m.a. grunnvatns- og jarðefnarannsóknir.

Frétta og viðburðayfirlit