mobile navigation trigger mobile search trigger
09.10.2015

Tæknidagur fjölskyldunnar

Tæknidagur fjölskyldunnar snýst um tækni, vísindi og sköpun í sinni skemmtilegustu mynd, enda nýtur þessi árlegi viðburður í Verkmenntaskóla Austurlands mikilla vinsælda. Sprengjugengið, rafknúnir kappakstursbílar, Segway-hjól, FAB Lab Austurlands og margt fleira verður í boði.

Tæknidagur fjölskyldunnar
Sprengjugengið að sprengja. (Ljósm. Zunderman)

Á tæknideginum sýnir fjöldi fyrirtækja á Austurlandi alls kyns tæknilausnir, gestir fá að kynnast landmótun í þrívídd í mögnuðum „sandkassa“, reykköfun og brunavörnum, rafknúnum kappakstursbílum frá HR og HÍ, rafmagnseinhjólum og Segway-hjólum auk þess sem gestir geta lært grunnatriði í málmsuðu.

Fab Lab Austurland verður að sjálfsögðu opið í tilefni dagsins en það var einmitt formlega tekið í notkun á Tæknideginum í fyrra. Þá munu félagar í Sprengjugengi Háskóla Íslands mæta með Sprengju-Kötu í broddi fylkingar en sýningar Sprengjugengisins hafa ætíð vakið lukku hjá ungum sem öldnum. Einnig verður boðið upp á skoðunarferð í nýsprengd Norðfjarðargöng og margt fleira.

Tæknidagur fjölskyldunnar fer að þessu sinni fram í Verkmennaskóla Austurlands í Neskaupstað, laugardaginn 10. október, kl. 12:00 - 16:00. Þetta er í þriðja sinn sem Austurbrú ses. og Verkmenntaskóli Austurlands taka höndum saman og skipuleggja þennan áhugaverða dag í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Þessi árlegi viðburður hefur tekist með eindæmum vel. Áætlaður fjöldi gesta á síðasta ári var um sjö hundruð manns.

Allir eru velkomnir og er aðgangur ókeypis.

Tæknidagur fjölskyldunnar dagskrá.pdf

Tæknidagur fjölskyldunnar yfirlit.pdf

Frétta og viðburðayfirlit