mobile navigation trigger mobile search trigger
20.08.2020

Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi 20. ágúst

Sjö eru nú í einangrun á Austurlandi með virkt smit. Þeim hefur því fækkað um einn frá síðustu helgi.

Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi 20. ágúst

Allir sem komu með Norrænu í morgun fengu leiðbeiningar um reglur er gilda um för yfir landamæri, sóttkví í fimm til sex daga og sýnatöku í kjölfarið. Örfáir þessara farþega virtust ekki átta sig fyllilega á reglunum og leituðu í kjörbúð eftir komu, en slíkt er þeim óheimilt. Afskipti voru höfð af þeim í kjölfar ábendinga starfsmanna og reglur við þá áréttaðar. Þeir virtust þá áttaðir og hugðust halda á dvalarstað. Af öðrum farþegum hefur lögregla ekki haft afskipti, en þeir voru rétt tæplega tvöhundruð talsins. Allir farþeganna er komu með Norrænu sýndu fram á hvar þeir munu dvelja í sóttkví. Nokkur fjöldi þeirra er hér í fjórðungnum.

Aðgerðastjórn á Austurlandi vill af þessu tilefni hvetja íbúa til árvekni sem fyrr, að huga að eigin smitvörnum, tveggja metra reglu þar á meðal. Í því sambandi er vakin athygli á að nokkur fjöldi ferðamanna er á svæðinu sem kom til landsins fyrir nokkru og uppfyllir allar reglur heilbrigðisyfirvalda. Öruggast er því að gæta alltaf að eigin smitvörnum og gagnvart öllum, án tillits til búsetu viðkomandi eða ríkisfangs. Þannig búum við hvorki við falskt öryggi eða óþarfa ótta.

Frétta og viðburðayfirlit