mobile navigation trigger mobile search trigger
11.04.2019

Fyrri umræða um ársreikning Fjarðabyggðar 2018

Fimmtudaginn 11. apríl 2019 fór fram fyrri umræða í bæjarstjórn Fjarðabyggðar um ársreikning bæjarfélagsins fyrir árið 2018. Ársreikningurinn hefur verið áritaður af bæjarráði og bæjarstjóra.

Fyrri umræða um ársreikning Fjarðabyggðar 2018

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Áformað er að ársreikningurinn verði afgreiddur við síðari umræðu í bæjarstjórn þann 2. maí næstkomandi.

Þann 10. júní 2018 sameinuðust Fjarðabyggð og Breiðdalshreppur undir merkjum og nafni þess fyrrnefnda.  Fjárhagsáætlanir beggja þessara sveitarfélaga hafa verið sameinaðar fyrir árið 2018 og einnig ársreikningar þeirra fyrir árið 2017 til samanburðar og glöggvunar fyrir lesendur árreikningsins.  Ákveðið var í mars 2018 að rekstur hjúkrunarheimilanna Uppsala og Hulduhlíðar fyrir árið 2017 yrði tekin inn í samstæðureikningsskil Fjarðabyggðar vegna ársins 2017.   Fjárhagsáætlun ársins 2018 var hins vegar ekki breytt til samræmis.  Sú fjárhagsáætlun sem hér liggur til grundvallar í samanburði við rekstur ársins 2018 inniheldur því ekki hjúkrunarheimilin.  Áhrif hjúkrunarheimilanna gætir hins vegar að fullu í samanburði rekstrar og efnahags milli áranna 2018 og 2017 þar sem heimilin voru í samstæðuuppgjöri ársins 2017.  Tekjur hjúkrunarheimilanna námu um 470 millj. kr. á árinu 2018.

Á heildina litið er rekstrarafkoma Fjarðabyggðar góð og lækkar skuldaviðmið umfram áætlanir.  Skuldaviðmið samstæðu í lok ársins 2018 er 84%.  

Rekstrarniðurstaða ársins hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð um 739 millj. kr. en rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 203 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða, án afskrifta og fjármagnsliða, hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð sem nam 1.619 millj. kr. á árinu.  Þar af var rekstrarniðurstaða í A hluta 735 millj. kr.  Framlegð eða EBITDA nam 20% hjá samstæðu og rúmlega 12% í A hluta.

Rekstrartekjur, samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins, námu samtals 8.124 millj. kr. en þar af námu rekstrartekjur A hluta 5.926 millj. kr.  Til samanburðar voru rekstrartekjur samstæðu 7.300 millj. kr. árið 2017.

Rekstrargjöld, án afskrifta, í samstæðu A og B hluta námu 6.504 millj. kr. og þar af voru rekstrargjöld A hluta 5.192 millj. kr.  Breyting launa, lífeyrisskuldbindinga og launatengdra gjalda í samstæðu til hækkunar nam um 13% eða um 481 millj. kr. á milli áranna 2017 og 2018 og þar af í A hluta um 177 millj. kr..  Annar rekstarkostnaður samstæðu hækkaði um 85 millj. kr. milli áranna 2017 og 2018 og nam 2.348 millj. kr. á árinu 2018.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur, í samstæðu A og B hluta, námu 365 millj. kr. samanborið við 307 millj. kr. árið 2017.

Fjárfestingahreyfingar í samstæðu A og B hluta námu samtals 762 millj. kr. á árinu 2018 samanborið við 947 millj. kr. árið áður.  Helstu fjárfestingar ársins voru vegna hafnarmannvirkja og skólabygginga.

Afborganir langtímalána og leiguskuldbindinga námu 512 millj. kr. á árinu.  Lántökur ársins námu um 400 millj. kr. og skýrast að mestu vegna uppgjörs lífeyrisskuldbindinga við Brú lífeyrissjóð.  Handbært fé hækkaði á árinu um 102 millj. kr. og nam 370 millj. kr. í árslok 2018.

Eignir sveitarfélagsins voru í lok árs 2018 samtals að fjárhæð 14.508 millj. kr., þar af 12.367 millj. kr.  fastafjármunir.

Heildarskuldir og skuldbindingar námu um 9.344 millj. kr. og hækka á milli ára um 101 millj. kr.  Langtímaskuldir við lánastofnanir og leiguskuldir námu um  5.367 millj. kr., skammtímaskuldir 1.502 millj. kr. og  lifeyrisskuldbinding nam um 2.466 millj. kr. 

Eigið fé samstæðu var 5.164 millj. kr. í árslok 2018 samanborið við 4.264 millj. kr. í árslok 2017.  Breytingin á eigin fé skýrist af rekstrarniðurstöðu ársins og endurmati á verðmæti lóða og lenda.

Í ársreikningi Fjarðabyggðar 2018 kemur styrkur sveitarfélagsins vel fram.  Fjarðabyggð byggir á sterkum tekjugrunni og sterkum atvinnugreinum í sjávarútvegi, áliðnaði og þjónustugreinum.  Niðurstaða ársreiknings gefur fyrirheit um áframhaldandi kraftmikið samfélag til framtíðar líkt og áður.

Nánari upplýsingar veita Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2018 - Fyrri umræða í bæjarstjórn.pdf

Frétta og viðburðayfirlit