mobile navigation trigger mobile search trigger
12.02.2024

Skólaþing - aukum virðingu

Miðvikudaginn 7. febrúar s.l. var haldið skólaþing í Grunnskóla Reyðarfjarðar þar sem starfsfólk, nemendur og forráðamenn þeirra settust niður og fundu leiðir til að styrkja sjálfsmynd og líðan nemenda.

Til þingsins var boðað í kjölfar niðurstaðna rannsókna og kannana sem lagðar hafa verið fyrir nemendur undanfarin misseri sem sýna að nemendum líður ekki alltaf vel. Þeir upplifa það að þeim gangi illa að læra, þeim líður ekki alltaf vel í bekknum sínum eða meðal jafnaldra og hafa almennt minni trú á sér.

Skólaþing - aukum virðingu

Niðurstöðurnar þóttu alvarlegar og því mikilvægt að bregðast við og finna leiðir til að hjálpa nemendum svo þeim gangi betur í lífi og starfi. Ákveðið var að leita til allra hlutaðeigandi aðila því skólinn er aðeins einn þáttur í lífi barna og ungmenna, heimilið annar og félagslíf þeirra enn annar áhrifaþáttur. Var því ljóst að þetta verkefni ynnum við ekki ein heldur þyrftu allir að vinna saman svo árangur næðist. Því var ákveðið að boða til skólaþings.

Nemendaráð fór yfir helstu niðurstöður kannana og valdi þá þætti sem þeim þótti mikilvægast að vinna með. Þeirra niðurstaða var síðan borin undir skólaráð og fulltrúa stjórnar foreldrafélagsins og varð endirinn sá að yfirskrift þingsins varð:

Hvað getum við, nemendur, heimili og skóli, gert til að bæta sjálfsmynd nemenda þannig að þeim líði sem best og blómstri í leik og starfi?

Þingið var síðan eins og fyrr segir, haldið í gærmorgun og eftir ánægjuleg þingstörf var niðurstaðan sú að langflest töldu mikilvægast að hefjast handa við að efla og auka almenna virðingu. Þar kom meðal annars fram að nemendur þyrftu að

 • bera meiri virðingu fyrir sjálfu sér
 • sýna hvert öðru meiri virðingu svo öll öðlist það öryggi að fá að vera þau sjálf
 • bera virðingu fyrir foreldrum sínum og fjölskyldum
 • bera virðingu fyrir náminu sínu og starfsfólki skólans

Heimilin þyrftu meðal annars að

 • bera meiri virðingu fyrir börnunum með því að sýna þeim meiri áhuga, verja meiri tíma með þeim og hlusta á þeirra raddir
 • tryggja andlega og líkamlega heilsu t.d. svefn, gott mataræði og hreyfingu
 • passa upp á nám barna sinna og veita þeim stuðning
 • bera virðingu fyrir fjölbreytileika nemendahópsins og stuðla að jákvæðum samskiptum foreldra og nemenda
 • sýna kurteisi í framkomu og samskiptum

Skólinn og starfsfólk hans þyrfti meðal annars að

 • bera meiri virðingu fyrir mismunandi námsgetu nemenda
 • sýna áhugasviði nemenda meiri áhuga
 • virða skoðanir allra
 • tryggja nægan tíma fyrir fjölbreytta hreyfingu
 • bjóða upp á fjölbreyttari mat í hádeginu
 • vera í upplýstara samstarfi við heimilin
 • sýna kurteisi í framkomu og samskiptum

Starfsfólk skólans mun nú vinna aðgerðaáætlun úr niðurstöðunum í samráði við nemendaráð, skólaráð og foreldrafélagið og verður hún send öllum hlutaðeigandi í tölvupósti.

Við erum afar ánægð með framkvæmd skólaþingsins okkar og væntum þess að það skili góðum árangri. Við viljum þakka foreldrum fyrir þeirra mikilvæga framlag til þingstarfa.

Frétt af heimasíðu Grunnskólans á Reyðarfirði

Fleiri myndir:
Skólaþing - aukum virðingu
Skólaþing - aukum virðingu
Skólaþing - aukum virðingu

Frétta og viðburðayfirlit