mobile navigation trigger mobile search trigger
16.04.2020

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2019 tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn

Fimmtudaginn 16. apríl 2020 fer fram fyrri umræða í bæjarstjórn Fjarðabyggðar um ársreikning bæjarfélagsins fyrir árið 2019. Ársreikningurinn hefur verið áritaður af bæjarráði og bæjarstjóra. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Áformað er að ársreikningurinn verði afgreiddur við síðari umræðu í bæjarstjórn þann 7. maí næstkomandi.

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2019 tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn

Á heildina litið er rekstrarafkoma Fjarðabyggðar góð, rekstrarniðurstaða ársins hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð um 580 millj. kr. en rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 67 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða, án afskrifta og fjármagnsliða, hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð sem nam 1.465 millj. kr. á árinu.  Þar af var rekstrarniðurstaða í A hluta 656 millj. kr.  Framlegð eða EBITDA nam 17,3% hjá samstæðu og rúmlega 10,5% í A hluta.

Rekstrartekjur, samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins, námu samtals 8.471 millj. kr. en þar af námu rekstrartekjur A hluta 6.232 millj. kr.  Til samanburðar voru rekstrartekjur samstæðu 8.156 millj. kr. árið 2018.

Rekstrargjöld, án afskrifta, í samstæðu A og B hluta námu 7.006 millj. kr. og þar af voru rekstrargjöld A hluta 5.575 millj. kr.  Breyting launa, lífeyrisskuldbindinga og launatengdra gjalda í samstæðu til hækkunar nam um 3,9% eða um 160 millj. kr. á milli áranna 2018 og 2019 og þar af í A hluta um 212 millj. kr. en reiknuð lífeyrisskuldbinding lækkaði um 55 m.kr..  Annar rekstarkostnaður samstæðu hækkaði um 309 millj. kr. milli áranna 2018 og 2019 og nam 2.689 millj. kr. á árinu 2019.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur, í samstæðu A og B hluta, námu 334 millj. kr. samanborið við 365 millj. kr. árið 2018.

Fjárfestingahreyfingar í samstæðu A og B hluta námu samtals 1.299 millj. kr. á árinu 2019 samanborið við 762 millj. kr. árið áður.  Helstu fjárfestingar ársins voru vegna hafnarmannvirkja, skólabygginga, gatnagerðar og veituframkvæmda.

Afborganir langtímalána og leiguskuldbindinga námu 570 millj. kr. á árinu.  Lántökur ársins námu um 169 millj. kr.  Handbært fé lækkaði á árinu um 237 millj. kr. og nam 132 millj. kr. í árslok 2019.

Eignir sveitarfélagsins voru í lok árs 2019 samtals að fjárhæð 15.213 millj. kr., þar af 14.214 millj. kr.  fastafjármunir.

Heildarskuldir og skuldbindingar námu um 9.341 millj. kr. og lækka á milli ára um 3 millj. kr.  Langtímaskuldir við lánastofnanir og leiguskuldir námu um  5.060 millj. kr., skammtímaskuldir 1.676 millj. kr. og  lifeyrisskuldbinding nam um 2.605 millj. kr. 

Eigið fé samstæðu var 5.872 millj. kr. í árslok 2019 samanborið við 5.164 millj. kr. í árslok 2018.  Breytingin á eigin fé skýrist af rekstrarniðurstöðu ársins og endurmati á verðmæti lóða og lenda.

Í ársreikningi Fjarðabyggðar 2019 kemur styrkur sveitarfélagsins vel fram.  Fjarðabyggð byggir á sterkum tekjugrunni og sterkum atvinnugreinum í sjávarútvegi, áliðnaði og þjónustugreinum.  Niðurstaða ársreiknings gefur fyrirheit um áframhaldandi kraftmikið samfélag til framtíðar líkt og áður.

Nánari upplýsingar veita Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2019 - Fyrri umræða í bæjarstjórn

Frétta og viðburðayfirlit