Menningarstofa Fjarðabyggðar býður upp á fjórar spennandi listasmiðjur fyrir börn yfir sumarið og er skráning enn opin í lokasmiðju sumarsins.
Skráning enn opin í lokasmiðju sumarsins hjá Menningarstofu

Menningarstofa heldur, líkt og síðustu sumur, utan um fjölbreyttar listasmiðjur fyrir börn í Fjarðabyggð. Tvær smiðjur eru nú þegar afstaðnar og sú þriðja fer fram þessa vikuna á Fáskrúðsfirði. Smiðjurnar eru ætlaðar börnum sem lokið hafa 3.–7. bekk og skráning er enn opin í lokasmiðjuna!
Fyrsta smiðja sumarsins var myndlistarsmiðja með listafólkinu Ra Tack og Bellu Podpadec í Þórsmörk í Neskaupstað. Smiðjan tókst einstaklega vel. Börnin nutu sín, lærðu nýjar aðferðir í myndlist og fengu tækifæri til að tjá sig á skapandi hátt.
Önnur smiðjan, Náttúru- og vættasmiðja með Regn og Öldu, fór fram í Bragganum við Stríðsárasafnið á Reyðarfirði og lauk síðastliðinn föstudag. Mikil ánægja ríkti meðal þátttakenda og ímyndunaraflið greinilega í miklum blóma, enda nóg af ævintýrum og náttúruöflum í Fjarðabyggð!
Þriðja smiðjan, sem stendur nú yfir á Fáskrúðsfirði, er tónlistarsmiðja með tónlistarfólkinu Elísabetu Mörk og Jónatan Emil. Þar fá börnin að kynnast grunnatriðum tónlistar undir handleiðslu heimafólks, en þau Elísabet og Jónatan eru bæði meðlimir í hljómsveitinni CHÖGMA, austfirskri progressive-metal sveit sem komið hefur víða fram.
Lokasmiðja sumarsins verður haldin í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði í samstarfi við Krakkaveldi. Skráning er enn opin og við hvetjum öll til að skrá börnin sín. Þetta er valdeflandi og skapandi smiðja þar sem börnin fá að taka þátt í ákvarðanatöku og móta verkefnin sjálf – þau ráða ferðinni!
Skráning fer fram í íbúagátt Fjarðabyggðar. Hafið samband á menningarstofa@fjardabyggd.is fyrir frekari upplýsingar.