mobile navigation trigger mobile search trigger
12.01.2017

Aukin stýring á beitar- og slægjulandi sveitarfélagsins

Vinna við kortlagningu beitarsvæða á landi í eigu Fjarðabyggðar hefur átt sér stað á síðustu árum og samrýmist hún því sem þekkist hjá öðrum sveitarfélögum.

Aukin stýring á beitar- og slægjulandi sveitarfélagsins

Ástæða þess að farið var í þessa vinnu var að fá yfirsýn yfir þau lönd sem væru nytjuð, til mats á ástandi lands og jafnræði til handa öllum þeim sem vilja fá aðgengi að beitar- og slægjulöndum, sérstaklega í nærumhverfi skipulagðra búfjárbyggða.

Jafnræði gagnvart útleigu á landi ásamt hóflegri gjaldtöku er haft að leiðarljósi við útdeilingu lands. Leiguverð á landi er 4.500 kr. á ári fyrir hektara, sem er hóflegt gjald í samanburði við önnur sveitarfélög.

Sveitarfélagið vill gera öllum jafnt undir höfði með nálgun á landi sem næst skipulögðum búfjárbyggðum og eru skýrir verkferlar, ásamt skráningu á leigutökum, mikilvægur liður í því. Þó að sveitarfélagið eigi töluvert land, er land sem næst skipulögðum búfjárbyggðum takmarkað og er því mikilvægt að sjá til þess að allir sem vilja geti haft jafnan aðgang að því landi.

Að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar bæjarstjóra var talið nauðsynlegt af bæjarfélaginu að stýra með markvissari hætti því beitarlandi sem sveitarfélagið hefur yfir að ráða og setja um það reglur til að gæta jafnræðis meðal þeirra sem hag hafa af nýtingu þess. "Sveitarfélagið taldi því mikilvægt að setja um þessi málefni reglur og á næstunni munum við vinna að því að koma þessum málum í betra horf í góðu samstarfi við hluteigandi," segir Páll að lokum.

Frétta og viðburðayfirlit