mobile navigation trigger mobile search trigger
15.02.2017

Breytingar á skipuriti sveitarfélagsins

Á bæjarstjórnarfundi 2. febrúar síðastliðinn voru samþykktar breytingar á skipuriti sveitarfélagsins. 

Breytingar á skipuriti sveitarfélagsins

Bæjarráð hefur farið með verkefni stjórnkerfisnefndar sem hefur unnið að skoðun stjórnsýslunnar og kom fram með tvær tillögur sem voru samþykktar.

Fyrsta tillagan sneri að því að skipta Framkvæmda-, umhverfis- og veitusviði upp í tvö aðskilin svið. Yfir sviðunum verða tveir sviðsstjórar sem heyra undir bæjarstjóra í skipuriti. Sviðin heita annars vegar Framkvæmda- og umhverfissvið og hins vegar Veitusvið. Sviðin tvö munu þó vinna náið saman, s.s. er varðar innkaup, umsjón útboða og framkvæmda ásamt samnýtingar vinnuafls. Staða sviðsstjóra Veitusviðs hefur verið auglýst laus til umsóknar. Um leið er starf forstöðumanns veitna ekki lengur til staðar í skipuritinu.

Nokkur atriði voru tiltekin sem ástæða þess að skipta sviðinu upp og ráða til þess sviðsstjóra, en umfang og stjórnsýsla í starfsemi veitna sveitarfélagsins hefur farið mjög vaxandi á síðustu árum.  Í fyrsta lagi er ráðgert að fagleg yfirstjórn og umsýsla veitna mun aukast til muna með aukinni stjórnun. Þá verður lögð áhersla á að innleiða formleg gæða- og eftirlitskerfi, og unnið að nákvæmari langtíma fjárhags- og framkvæmdaáætlunum. Þá hefur sviðstjórinn yfirumsjón með þróun, samningagerð, öryggis- og leyfismálum veitna svo fátt eitt sé nefnt.

Seinni tillagan sneri að því að sviðsstjórar fjölskyldusviðs verða áfram tveir. Fræðslustjóri annars vegar og félagsmálastjóri hins vegar. Þeir verða jafnsettir í skipuriti sveitarfélagsins. Samvinna verður á milli þeirra og samræming og samhæfing verkefna sviðsins svo fjölskyldustefna og þjónusta þess verði með sem bestum hætti. Lögð verði áfram áhersla á sterka faglega forystu í félagsmálum og hún nái yfir barnavernd, félagsmál almennt, málefni fatlaðra, öldrunarmál, málefni innflytjenda og jafnréttismál. Staða félagsmálastjóra hefur verið auglýst laus til umsóknar.

 

Nýtt skipurit má sjá hér.

Frétta og viðburðayfirlit