mobile navigation trigger mobile search trigger
27.02.2024

Endurbætur á stjórnskipulagi Fjarðabyggðar

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum í dag breytingar á stjórnskipulagi sveitarfélagins. Markmiðið  með breytingunum er að ná betur utan um ýmis úrbótamál, starfsmannamál, stjórnsýslu og auka stuðning við ólík fagsvið sveitarfélagsins.

Endurbætur á stjórnskipulagi Fjarðabyggðar

Í fyrra fékk bæjarráð Deloitte til að gera greiningu á því hvað þarf að gera til að efla getu sveitarfélagsins til að vinna að úrbótum í rekstri og skipulagi. Ýmis verkefni voru tilgreind sem unnið hefur verið að á síðustu misserum. Eitt af þeim hefur snúist um endurskoðun á verkaskiptingu og ábyrgð m.a. í efsta stjórnendalagi sveitarfélagsins. Í þeim tilgangi hefur verið rýnt í stjórnskipurit Fjarðabyggðar. Núverandi skipurit Fjarðabyggðar hefur mótast með ýmsum breytingum á undanförnum árum og nú síðast þegar breytingar voru gerðar í upphafi árs 2023 þegar  umhverfis-, skipulags og framkvæmdasvið voru sameinuð í eitt svið.

Í rýni Deloitte var m.a. lagt til að skoða hlutverkaskiptingu og ábyrgð stjórnenda m.t.t. verkefna og með hvaða hætti hægt væri að auka skilvirkni í stjórnkerfi sveitarfélagsins.  Þá var einnig lögð mikil áhersla á mannauðsmál sem og getu stjórnkerfisins að vinna að úrbótum, forgangsröðun og eftirfylgni verkefna.

Unnið hefur verið að endurbótum á stjórnskipuriti Fjarðabyggðar og verða eftirfarandi breytingar gerðar á því sem taka munu gildi frá og með 1. maí nk.

  • Nýtt skipurit tekur gildi sem samanstendur af tveimur fagsviðum og tveimur stoðsviðum sem starfa þvert á fagsviðin auk skrifstofu bæjarstjóra sem ber m.a. ábyrgð á stjórnsýslu sveitarfélagsins.
  • Stjórnsýslu- og þjónustusvið verður lagt niður og nýtt mannauðs- og umbótasvið tekur við hluta af verkefnum þess. Skýrari áhersla verður þannig í skipuriti á mannauðs- og umbótamál.
  • Starf mannauðsstjóra verður lagt niður og færist það til nýs sviðsstjóra mannauðs- og umbótasviðs.
  • Verkefni tengd stjórnsýslu, upplýsingatæknimálum og þjónustu færast til skrifstofu bæjarstjóra og veitir bæjarritari henni forstöðu.
  • Starf atvinnu- og þróunarfulltrúa verður lagt niður og stýrir bæjarstjóri þeim verkefnum með sviðsstjórum og öðrum starfsmönnum.
  • Breytt verður heiti á framkvæmdasviði til samræmis við heiti á fagnefnd og mun það hér eftir heita Skipulags- og framkvæmdasvið.
  • Breytt verður heiti á fjármálasviði í fjármála- og greiningarsvið.
  • Breytingar og tilfærslur verða á stöðugildum á milli stoðsviðanna tveggja sem og skrifstofu bæjarstjóra í takt við skilgreiningar á verkefnum en stöðugildum mun ekki fjölga

Bæjarstjórn staðfesti breytingarnar á fundi sínum fyrr í dag og var bæjarstjóra falið að annast endanlega útfærslu tilögunnar.

Nánari upplýsingar veitir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri – jona.a.thordardottir@fjardabyggd.is

Frétta og viðburðayfirlit