mobile navigation trigger mobile search trigger
20.11.2019

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2020 samþykkt

Síðari umræða um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar og stofnana fyrir árið 2020 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2021 – 2023, fór fram á bæjarstjórnarfundi þann 14. nóvember. Fjárhagsáætlunin var samþykkt með 7 atkvæðum fulltrúa Framsóknarflokks, Fjarðalista og Miðflokksins en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðsluna.

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar  2020 samþykkt

Í fjárhagsáætlun ársins 2020 er áfram lögð áhersla á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð en einn liður í því er að sameina fjölskyldusvið í eitt svið og ráða þar inn fleira fólk. Þessi breyting verður áfram innleidd með aðferðum Austurlandslíkansins að leiðarljósi, en í því er lögð áhersla á snemmtæka íhlutun og á gildi öflugra forvarna. Þá verður auknu fé veitt til leikskólastigsins, til menningarmála og til málefna eldri borgara. 

Fæðisgjaldskrár grunnskóla og gjaldskrá leikskóla og tónlistarskóla standast fyllilega samanburð við önnur sveitarfélög. Systkinaafsláttur leikskólagjalda helst óbreyttur á milli ára og eru gjöld vegna leik- og skóladagheimila auk tónskóla, með þeim lægstu á landinu auk þess sem afslættir eru virkir á milli skólastiga. Þá verður stigið næsta skref í þeirri stefnu að gera skólamáltíðir í grunnskólum gjaldfrjálsar en máltíðir lækka um helming 1. ágúst 2020 og mun þá hver skólamáltíð kosta 150 kr.

Í fjárfestingum er áfram horft til þeirra framkvæmda sem eru nauðsynlegastar með fjölgun íbúa og hag sterks atvinnulífs í huga. Meginfjárfesting A hluta verður áfram í stækkun leikskóla á Reyðarfirði en jafnframt verður unnin kostnaðar- og þarfagreining vegna stækkunar leikskóla á Eskifirði með það fyrir augum að farið verði í hönnunarvinnu á árinu 2020. Þá verður áfram unnið að undirbúningi framkvæmda við Fjarðabyggðarhöllina með það að markmiði að þær hefjist á kjörtímabilinu. Áfram verður unnið að innviðauppbyggingu í Breiðdal eins og samið var um í tengslum við sameininguna á árinu 2018.

Meginfjárfestingar Hafnarsjóðs á komandi ári verða í uppbyggingu á nýrri hafnaraðstöðu við fiskiðjuver Eskju á Eskifirði, stækkun Mjóeyrarhafnar á Reyðarfirði og gerð viðlegukants á Stöðvarfirði.

Sem fyrr verður gætt aðhalds í rekstri sveitarfélagsins á næstu árum og áfram verður leitað hagræðingartækifæra. Meginniðurstaða fjárhagsáætlunar er að A hluti skilar rekstrarafgangi upp á 101 milljón króna og í samstæðu A og B hluta er rekstrarafgangur 460 milljónir króna. Allt bendir til að skuldaviðmið sveitarsjóðs Fjarðabyggðar verði um 78% í árslok 2020.

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2020 - 2023

Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.

Frétta og viðburðayfirlit