mobile navigation trigger mobile search trigger
02.09.2016

Nýr áningastaður í smíðum

Framkvæmdir vegna áningarstaðar við Helgustaðarnámu hafa sóst vel. Náman er friðlýst náttúruvætti og hafa framkvæmdirnar þann tvíþætta tilgang að verja svæðið annars vegar gegn ágangi og hins vegar að auðvelda ferðamönnum að sækja staðinn heim.

Nýr áningastaður í smíðum
Unnið að vegghleðslunni. Ef fram heldur sem horfir tekst að ljúka verkinu á næstu dögum. (Ljósm. Sigurður Jóhannes Jónsson)

Steinlögð aðkomustétt, göngustígar, trépallar og salernisaðstaða er á meðal þeirra verkefna sem unnið er að. Einnig verða settar upp varnagirðingar við námu og námuop, upplýsingaskillti og áningaraðstaða fyrir gesti með borðum og stólum ásamt bílastæðum, auk þess sem hlaðinn steinveggur mun prýða ásýnd staðarins.

Náman og svæðið umhverfis hana hefur verið friðlýst sem náttúruvætti. Í því felst m.a. að staðurinn er ætlaður til almennrar útiveru og náttúruskoðunar. Ekki er því í skipulagi Fjarðabyggðar gert ráð fyrir öðrum mannvirkjum en þeim sem vænta má vegna almennrar útivistar og náttúruskoðunar, s.s. stígum, skiltum, áningarstöðum og bílastæðum fyrir göngu- og ferðafólk.

Silfurberg gegndi mikilvægu hlutverki í náttúruvísindalegum rannsóknum 18. og 19. aldar og lagði með því grunninn að margvíslegum tækniframförum 20. aldarinnar. Bergið úr Helgustaðarnámu var sérlega tært og var eftir því eftirsótt.

Framkvæmdin er styrkt að helmingshluta af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Um hönnun mannvirkja og landslagsmótun sá Landmótun. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í októberbyrjun.

Fleiri myndir:
Nýr áningastaður í smíðum
Horft yfir námuna og svæðið um kring. (LJósm. Anna Berg Samúelsdóttir).
Nýr áningastaður í smíðum
Myndgert útlit af varnargirðingum. (Ljósmyndavinnsla Landmótun)

Frétta og viðburðayfirlit