mobile navigation trigger mobile search trigger
17.11.2016

Nýtum sóknarfærin til fulls

Áhugavert málþing fór fram nýlega í Egilsbúð um þau sóknarfæri sem nýju Norðfjarðargöngin hafa í för með sér en göngin opna á næsta ári.

Nýtum sóknarfærin til fulls

Að málþinginu stóð áhugafólk um Norðfjarðargöng í samstarfi við SÚN og Fjarðabyggð. Markmið með málþinginu var m.a. að stuðla að umræðu um þau samfélagslegu áhrif sem þessar stórstígu umbætur í samgöngumálum munu hafa í för með sér.

Til máls tóku Emil Sigurjónsson frá HSA, Gunnþór Ingvarsson, forstjóri SVN, Hákon Hildibrand, hótelstjóri, Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, Kjartan Reynisson, formaður íbúasamtakanna á Fáskrúðsfirði, Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og ÞóroddurBjarnason, prófessor við HA.

Frummælendur fjölluðu um kosti og galla Norðfjarðarganga fyrir samfélagið á Norðfirði, í Fjarðabyggð og á Austurlandi.
Á heildina litið eru þau tækifæri sem blasa við langtum fleiri en mögulegir ókostir. Reynsla annars staðar af á landinu sýnir að jarðgöng auka umferð, sem skapar ferðaþjónustu á viðkomandi stað áhugaverð sóknarfæri. Jafnframt kom fram að göng eru nauðsynleg forsenda þess að auka megi lífsgæði íbúa eða verja þau, enda þótt framkvæmdin leiði ekki til íbúafjölgunar.

Í heilbrigðismálum eru göngin nauðsynleg forsenda þess að byggja megi upp og efla heilsugæslu í Fjarðabyggð og í heilbrigðismálum landshlutans munu göngin efla til muna stöðu Umdæmissjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað.

Verkmenntaskóli Austurlands fær tækifæri til frekari vaxtar og fyrir sjávarútveg og aðra atvinnuvegi munu göngin ekki síður verða lyftistöng.

Undir lok málþingsins var jafnframt ákveðið að halda umræðu um áhrif Norðfjarðarganga áfram og var þeim hópi sem skipulagði þingið falið að halda því starfi áfram. Tengiliður hópsins er Guðmundur Rafnkell Gíslason, gudmundur.gislason@fjardasport.is.

Frétta og viðburðayfirlit