mobile navigation trigger mobile search trigger
31.01.2017

Þróun fasteignagjalda í Fjarðabyggð

Álagningu fasteignagjalda er lokið í Fjarðabyggð fyrir árið 2017. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti óbreytta álagningu á milli áranna 2016 og 2017 nema hvað varðaði álagningu sorphreinsunar- og sorpeyðingargjalda. 

Þróun fasteignagjalda í Fjarðabyggð

Álagningarprósenta fasteignaskatts, lóðarleigu, vatnsgjalds og holræsagjalds er óbreytt á milli ára, bæði á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði.  Álagningaprósentur má sjá á heimasíðu Fjarðabyggðar í gjaldskrá fasteignagjalda. Afsláttur af fasteignaskatti til elli- og örorkulífeyrisþega hækkar í samræmi við launavísitölu og breytingu á heildarfasteignamati í Fjarðabyggð.

Vegna nýs samnings við verktaka og aukins kostnaðar við alla sorpmeðhöndlun hækkar gjaldaliðurinn um 6.314 kr á milli áranna 2016 og 2017. Á árinu 2017 er álagt sorphreinsunargjald kr. 28.070 en sorpeyðingargjald kr. 13.322 eða samtals kr. 41.392. Álagningin er föst krónutala á heimili eða íbúð óháð stærð eða fasteignamati hennar en er einnig háð sorptunnufjölda.

Fasteignamat og lóðarmat er grunnur álagningar fasteignagjaldanna fyrir utan sorphreinsunar- og sorpeyðingargjöld. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands sem ber ábyrgð á gerð fasteignamats hækkaði fasteigna- og lóðarmat mjög misjafnlega innan Fjarðabyggðar. Sem dæmi þá hækkaði fasteignamat íbúðarhúsnæðis í Neskaupstað að meðaltali um 8,7% á milli áranna 2016 til 2017 en um 2,5% á Eskifirði. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis á Reyðarfirði hækkaði um 5,7%, á Fáskrúðsfirði um 4,5% og á Stöðvarfirði um 3,5% á milli áranna 2016 til 2017. Breytingar á fasteignamati eiga að endurspegla breytingar á markaðsvirði íbúðarhúsnæðis á hverjum stað og byggjast á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum. Breytingar á fasteignamati á árinu 2017 endurspegla verðbreytingar á húsnæði frá árunum 2014/2015 til áranna 2015/2016 því fasteignamat ársins 2017 er tekið saman og undirbúið á vormánuðum 2016. Það er því ákveðin tímatöf í breytingum á fasteigamati.

Í heildina hækkar álagning Fjarðabyggðar á bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði um 7,3% milli áranna 2016 til 2017 og nemur um 406 m.kr. árið 2017. Álagning vatnsgjalds, holræsagjalds og lóðarleigu nemur samtals um 317 m.kr. árið 2017 og hækkar um 7,4% á milli ára.

Frétta og viðburðayfirlit