mobile navigation trigger mobile search trigger
11.12.2023

Úttekt á stjórnsýslu Fjarðabyggðar

Á árinu 2023 fékk bæjarráð Deloitte til að fara í greiningu á því hvað þarf að gera til að efla getu sveitarfélagsins til að vinna að úrbótum í rekstri sem skili sér í betri vinnustað, skilvirkari breytingarstjórnun og öflugri rekstri. Ýmis verkefni voru þar tilgreind sem vinna þarf að á næstu mánuðum.

Úttekt á stjórnsýslu Fjarðabyggðar

Snúa verkefnin m.a. að skýrari verkaskiptingu, aukna áherslu á fókus og forgangsröðun úrbóta, skilvirkari ferla sem og aukið aðhald í breytingarferlum.

Stærsta ábending Deloitte snýr þó að framtíðarsýninni þ.e. að lagt er til að sveitarfélagið haldi áfram að móta sýn og stefnu um það hvernig á að þróa þjónustuna í því fjölkjarna samfélagi sem sveitarfélagið er. Miklar breytingar hafa orðið á umhverfi sveitarfélagsins þessi 25 ár frá því Fjarðabyggð varð fyrst til. Bæði hefur atvinnulífið á svæðinu tekið miklum breytingum sem og þarfir íbúa fyrir þjónustu.

Í dag er samsetning þess hóps sem býr í Fjarðabyggð allt annar en hann var fyrir 25 árum og þ.a.l. væntingarnar um þjónustu sömuleiðis. Sífellt bætist í lög og reglugerðir sem sveitarfélögum ber að uppfylla og nýjar stefnur á vettvangi stjórnvalda líta dagsins ljós sem eiga það sammerkt að kalla eftir samvinnu á milli stjórnsýslustiga svo við getum tekist á við framtíðina saman. Í slíku umhverfi er mikilvægt að leita fyrirmynda og skoða mögulega nýjar áhugaverðar lausnir á framkvæmd þjónustunnar svo það rúmist innan þess skattfjár og þjónustutekna sem sveitarfélagið hefur til skiptanna. 

Sem lið í þeirri vinnu er á vettvangi bæjarráðs nú hafin undirbúningur að fundum í öllum byggðakjörnum Fjarðabyggðar sem haldnir verða um miðjan  janúar 2024. Þar verður m.a. farið yfir fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og ýmis mál rædd er tengjast rekstri sveitarfélagsins og þróun hans.

Hægt er að lesa niðurstöðurnar hér: Niðurstöður úttektar Deloitte

Frétta og viðburðayfirlit