mobile navigation trigger mobile search trigger
29.07.2014

Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands rak smiðshöggið á eitt athyglisverðasta verkefni síðustu ára, með því að festa skjöld Minjaverndar á Franska spítalann, á opnunarhátíð sem fram fór á Fáskrúðsfirði. Þá opnaði forseti einnig formlega safnið Fransmenn á Íslandi.

Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, festir skjöld Minjaverndar á Franska spítalann og opnaði með því frönsku húsin formlega. Til vinstri við forseta er Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Minjaverndar, en til hægri Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og Þorsteinn Bergsson, verkefnastjóri Minjaverndar.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands rak smiðshöggið á eitt athyglisverðasta verkefni síðustu ára, með því að festa skjöld Minjaverndar á Franska spítalann, á opnunarhátíð sem fram fór á Fáskrúðsfirði sl. laugardag. Þá opnaði forseti einnig formlega safnið Fransmenn á Íslandi, sem helgað er menningararfi franskra sjómanna, með því að festa skjöld safnsins á Læknishúsið.

Að opnunarathöfn lokinni tóku auk forseta til máls Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Minjaverndar og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Í máli sínu þakkaði Þröstur gott samstarf við sveitarfélag og heimamenn og rakti verkefnið í grófum dráttum, en á heildina litið nemur fjárfesting Minjaverndar í verkefninu um einum milljarði króna. 

Þýðing verkefnisins fyrir samfélagið á Fáskrúðsfirði, mannlíf og ásýnd bæjarins var forseta og bæjarstjóra hugleikið. Þá báru báðir lof á Minjavernd fyrir einstaklega vel unnið verk og vandað.

Auk þess sem frönsku húsin og safnið á Fáskrúðsfirði opnaði formlega, var Litla kapellan blessuð. Bróðir David Tencer, kapúsínamunkur á Reyðarfirði, blessaði. Litla kapellan er eina húsið af þeim fimm, sem Minjavernd hefur endurbyggt eða endurgert frá grunni, sem gegnir enn upphaflegu hlutverki sínu. Í hinum fjórum, sem eru Franski spítalinn, Læknishúsið, Sjúkraskýlið og Líkhúsið, er nú til húsa Fosshótel Austfirðir, veitingarstaðurinn l'Abri og safnið Fransmenn á Íslandi. 

Þá opnaði Steinþór Pétursson, framkvæmdastjóri Fjarðabyggðahafna, Frönsku bryggjuna neðan við Franska spítalann, en hana lagði Minjavernd með stuðningi Fjarðabyggðahafna.

Opnunarathöfnin fór fram á frönskum dögum að viðstöddu fjölmenni. Þar á meðal voru bæjarstjórn Fjarðabyggðar, Marc Bouteiller, sendiherra Frakklands á Íslandi, Berglindi Ásgeirsdóttur, sendiherra Íslands í Frakklandi, Lionel Tardy, formaður frönsk-íslensku samstarfsnefndar franska þjóðþingsins, Jean-Yves de Chaisemartin, borgartjóri í Paimpol og Michèle Kerckhof, varaborgarstjóri Gravelines.

Hér að neðan má sjá svipmyndir af opnunarathöfn, blessun Litlu kapellunnar og minningarathöfn Franskra daga í Franska grafreitnum á Fáskrúðsfirði.

 

Franski spítalinn opnar á ný

 

Fleiri myndir:
Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði
Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði
Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði
Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði
Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði
Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði
Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði
Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði
Frönsku húsunum fagnað á Fáskrúðsfirði

Frétta og viðburðayfirlit