mobile navigation trigger mobile search trigger
07.05.2024

LISTASMIÐJUR MENNINGARSTOFU FJARÐABYGGÐAR FYRIR BÖRN SUMARIÐ 2024

Menningarstofa Fjarðabyggðar mun, líkt og síðustu ár, halda úti listasmiðjum sumarið 2024 en þar eru í boði skapandi námskeið fyrir börn sem lokið hafa 3.-7. bekk grunnskóla (fædd 2011-2015). Boðið verður upp á fjölbreytt námskeið víðsvegar um Fjarðabyggð. Athugið að takmarkaður fjöldi barna kemst í hverja smiðju og fyrstur kemur fyrstur fær. Reiknað er með 12-15 börnum í allar smiðjur nema Textílsmiðjuna sem tekur við 8 þátttakendum.

LISTASMIÐJUR MENNINGARSTOFU FJARÐABYGGÐAR FYRIR BÖRN SUMARIÐ 2024

Í boði verða 5 listasmiðjur:

 • MYNDLISTARSMIÐJA – PERSÓNUSKÖPUN OG ÚRKLIPPUR
 • SÖNG- OG LEIKLISTASMIÐJA
 • TEXTÍLSMIÐJA - HVAÐ LEYNIST UNDIR YFIRBORÐINU? (Fab lab)
 • GEIMSTÖÐIN – MARGMIÐLUNARSMIÐJA
 • SUMARSIRKUSSMIÐJA HÚLLADÚLLUNNA

Til athugunar fyrir foreldra:

 1. Smiðjurnar eru starfræktar fimm daga vikunnar með tveimur undantekningum en þær eiga við fyrstu vikuna og svo er ekki smiðja þann 17. júní. Smiðjurnar eru eftir hádegi, og haldin verður stutt kynning á vinnunni í lok námskeiðs. Nánari upplýsingar um námskeiðin í lýsingu og það verða sendar í tölvupósti til skráðs forráðamanns viku áður en námskeið hefst.
 2. Við hvetjum fólk til að sækja námskeið milli staða. Athugið að ekki eru skipulagðar samgöngur milli byggðakjarna fyrir þessi námskeið en við hvetjum foreldra til að skiptast á að keyra á milli og nýta almenningssamgöngur eins og hægt er.
 3. Við biðjum foreldra um að vera tímanlega í að skrá börnin þar sem það er takmarkað pláss í boði. Lágmarksfjöldi á námskeið eru fimm þátttakendur.
 4. Aðeins þeir sem eru skráðir mega vera á námskeiðunum, ef vinir vilja bætast í hópinn skulu foreldrar hafa samband við leiðbeinanda um möguleika á skráningu.
 5. Verð fyrir hvert námskeið er 12.000 kr.
 6. Veittur er 25% systkinaafsláttur (verð: 9.000 kr. fyrir hvert barn)
 7. Ef barn tekur þátt í fleiri en einu námskeiði er einnig veittur 25% afsláttur  (verð: 9.000 kr. fyrir hvert námskeið)
 8. Börnin skulu mæta með létt nesti og í þægilegum fötum sem mega verða fyrir hnjaski. Við erum oft bæði úti og inni sama daginn og því er gott að vera klæddur eftir veðri.

Nánari upplýsingar um námskeiðin veitir starfsfólk Menningarstofu í síma 470-9000 og menningarstofa@fjardabyggd.is // Fylgist með tilkynningum á facebook síðu Menningarstofu.

Verkefnið er skipulagt og stýrt af Menningarstofu Fjarðabyggðar og hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands og úr samfélagssjóði Landsbankans. Listafólkið stýrir smiðjunum tekur einnig þátt í öðrum verkefnum á vegum Menningarstofu.

UMSÓKNIR

Sótt er um í gegnum íbúagátt Fjarðabyggðar með því að smella hér

LÝSING Á LISTASMIÐJUM MENNINGARSTOFU 2024:

MYNDLISTARSMIÐJA – PERSÓNUSKÖPUN OG ÚRKLIPPUR

 1. júní til 7. júní kl. 12:30-16:30 og laugardaginn 8. júní kl. 10:00-13:00. Staðsetning Fáskrúðsfjörður, í Skrúð. Leiðbeinandi: Marc Alexander

Myndlistarsmiðjan persónusköpun og teiknikennsla hefur verið vinsælasta námskeiðið okkar þrjú ár í röð og í fyrra komust færri að en vildu. Þetta er tilvalin smiðja fyrir alla krakka sem elska það að teikna og skapa. Í smiðjunni fá börnin leiðsögn við að mála, teikna fígúrur og finna andlit og persónur í umhverfi sínu og skapa list með úrklippum úr bókum og blöðum. Meðal verkefna eru ferðir út undir bert loft þar sem leitast verður við að persónugera umhverfið og hversdagslega hluti sem þar er að finna, málaðar verða myndir, en einnig verður sett upp lokasýning fyrir aðstandendur.

Það er listamaðurinn Marc Alexander sem býr á Fáskrúðsfirði sem stýrir smiðjunni en þar nýtur hann einnig aðstoðar starfsfólks skapandi sumarstarfa í Fjarðabyggð. Marc hefur haldið nokkrar einkasýningar í Fjarðabyggð á verkum sínum, kennt smiðjur á BRAS og leiðbeint í skólum á Austurlandi hvernig gera má skemmtilegar klippimyndir. Marc mun taka þátt í Innsævi í ár auk þess sem hann er verkefnastjóri hjá Menningarstofu þar sem hann stýrir skapandi sumarstörfum annað árið í röð.

Athugið að vegna skólaslita í Fjarðabyggð hefst smiðjan miðvikdaginn 5. júní og lýkur laugardaginn 8. júní.

SÖNG- OG LEIKLISTASMIÐJA

 1. júní til 14. júní kl. 13:00-16:00. Staðsetning Reyðarfirði, í Bragganum við Stríðsárasafnið.
  Leiðbeinandi: Karitas Harpa Davíðsdóttir

Söng- og leiklistasmiðja þar sem megináherslur eru grunnatriði söngs, framkomu, leiklistar auk styrkingar sjálfstrausts. Markmið námskeiðsins er að þátttakendur kynnist sjálfum sér betur og finni hvar áhugi þeirra og styrkleikar liggja í sviðslistum og framkomu. Við veltum fyrir okkur fjölbreytileika sviðslista og möguleikunum sem liggja í heimi hennar. Í gegnum hugmyndavinnu, æfingar, samtöl og leiki vinnum við að því að byggja traust á okkur og hverju öðru en einnig góðan grunn sem gagnast þátttakendum í framkomu og sköpun í dagsdaglegu lífi.

Karitas Harpa er tónlistakona og vanur leiðbeinandi. Hún hefur sinnt starfi leiðbeinanda í myndlist í Grunnskóla Reyðarfjarðar síðastliðin 2 ár fyrir allan aldur. Áður hefur hún starfað sem söngkona, fjölmiðlakona í útvarpi, prenti og sjónvarpi. Hún hefur haldið úti hlaðvörpum og kennt í Söngskóla Maríu Bjarkar. Karitas hefur komið fram víða, sem söngkona, í að verða tvo áratugi en hún hefur einnig samið eigin tónlist og gefið út plötur.

TEXTÍLSMIÐJA - HVAÐ LEYNIST UNDIR YFIRBORÐINU? (Fab lab)

 1. júní - 21. júní frá kl. 12:30-16:00. Staðsetning: Fab Lab Austurland, Neskaupstað. Leiðbeinandi: Ólöf Þ. Hannesdóttir

Textílsmiðja þar sem viðfangsefnið er þær fjölbreyttu og ævintýralegu verur sem leynast undir yfirborði sjávar. Börnin fá að kynnast því hvað lífverur hafsins geta verið ótrúlega furðulegar og ævintýralegar. Kannski leynist ótalmargt dularfullt í sjónum sem við höfum ekki séð. Í gegnum hugmyndavinnu og teikningu skapa þau sínar eigin verur og gera tilraunir með að skapa mynstur. Sá ævintýraheimur verður svo útfærður sem fatalímmiðar á stuttermabol, sem er innifalinn í námskeiðsgjaldi. Námskeiðið mun bæði fara fram innandyra og utandyra.

Ólöf Þ. Hannesdóttir er myndlistakona og kennari. Hún stundaði myndlistanám við skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Nýverið lauk hún mastersnámi í kennslu list- og verkgreina þar sem hún lagði áherslu á að bæta þekkingu sína bæði í myndlistakennslu og textílmennt. Hún hefur kennt myndmennt í grunnskóla til margra ára.

Ath. vegna 17. júní sem er á mánudegi fellur smiðjan niður þann daginn en bætt er við hálftíma hina fjóra dagana.

GEIMSTÖÐIN - MARGMIÐLUNARSMIÐJA

 1. júní - 28. júní frá kl. 13:00-16:00. Staðsetning: Valhöll, Eskifirði. Leiðbeinandi: Steinunn Eldflaug Harðardóttir

Geimstöðin er lista- og margmiðlunarsmiðja þar sem fjölbreytnin ræður för og verður því ýmislegt og alls konar haft fyrir stafni. Þar verður m.a. ferðast um óravíddir raftónlistar og lært að gera sömpl og furðuleg hljóð, einnig verður kennt að spila tónlist sem plötusnúður og að halda flott partý og þar verða framdir fjölbreyttir gjörningar, einnig verða forrit skoðuð sem henta til að búa til tölvuleiki og farið í hljóðver og tekin upp tónlist svo fátt eitt sé nefnt.

Steinunn Eldflaug Harðardóttir er fjölhæf og ævintýragjörn listakona og vanur og skemmtilegur leiðbeinandi. Hún er þekkt tónlistarkona sem hefur leikið tónlist sína um heim allan og gefið út plötur sínar víða. Steinunn vinnur einnig við með margvísleg önnur listform og margmiðlun eins og myndbandalist, teikningar og gjörninga auk þess sem hún hefur unnið við að búa til tölvuleiki.

SUMARSIRKUSSMIÐJA HÚLLADÚLLUNNAR

 1. júlí – 5. júlí frá kl. 13:00-16:00. Staðsetning: Íþróttahúsið í Neskaupstað. Leiðbeinandi: Unnur Máney

Húlladúllan býður börn í Fjarðabyggð velkomin í vikulangt sirkusævintýri. Börnin kynnast töfrum sirkuslistanna og spreyta sig á fjölbreyttum sirkusáhöldum og sirkusfimleikum. Það verður húllað húllahringjum, lærðir loftfimleikar í silki, djöggla slæðum, boltum og hringjum, dansa með fimleikaborða, leika að blómaprikum, kínverskum jójóum og sveiflusekkjum, láta eins og alvöru trúðar, vagga á veltibrettum, halda jafnvægi á töfrafjöðrum og margt fleira. Áhersla er lögð á sköpunargleði, samvinnu og umhyggju fyrir félögum okkar á sama tíma og þátttakendur uppgötvi og njóti eigin styrkleika. Sirkuslistirnar styrkja líkamlega getu, jafnvægi og liðleika en þroska líka einbeitingu, styrkja sjálfsmynd og kveikja í ímyndunarafli og sköpunargleði.

Húlladúllan er sjálfstætt starfandi sirkuslistakona, búsett á Ólafsfirði. Hún er lærður sirkuskennari og hefur kennt og sýnt með Sirkus Íslands og breska sirkusnum Let’s Circus auk þess að koma fram á ýmsum viðburðum á alþjóðlegri grundu.

Frétta og viðburðayfirlit