mobile navigation trigger mobile search trigger
18.12.2014

Eðlilegt að almannaþjónusta sé í boði um land allt

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjallaði um tilfærslu starfa út á land á fundi sínum í dag. Þetta var jafnframt síðasti fundur ársins. Fyrsti fundur bæjarstjórnar á nýju ári verður 8. janúar nk.

 

Eðlilegt að almannaþjónusta sé í boði um land allt

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjallaði um tilfærslu starfa út á land á fundi sínum í dag. Telur bæjarstjórn að horfa verði á landið allt í þessum efnum og verkefnum valin staðsetning með tilliti til aðstæðna á hverjum stað og eðli verkefnanna. Víða á Austurlandi hafi opinberum störfum fækkað og atvinnuástand þyngst mjög með tilflutningi starfa.

Bæjarstjórnin hvetur því ríkisvaldið til að horfa til slíkra þátta og vanda allan undirbúning þegar flutningur á störfum og stofnunum um landið er til skoðunar. 

Þá er að mati bæjarstjórnar eðlilegt að almannaþjónusta ríkisvaldsins sé í boði um land allt en ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu.

Samþykkti bæjarstjórn eftirfarandi bókun um málið:

„Bæjarstjórn Fjarðabyggðar fagnar umræðu og áhuga stjórnvalda til að dreifa opinberum störfum um landið. Brýnt er að horft verði á landið allt og verkefnum valin staðsetning með tilliti til aðstæðna á hverjum stað og eðli verkefnanna. Víða á Austurlandi hefur opinberum störfum fækkað og atvinnuástand þyngst mjög með tilflutningi starfa. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hvetur ríkisvaldið til að horfa til slíkra þátta og vanda allan undirbúning þegar flutningur á störfum og stofnunum um landið er til skoðunar. Þá er nauðsynlegt að umræða um flutning starfa sé hófstillt og haft í huga að það er eðlilegt að almannaþjónustu ríkisvaldsins sé í boði um land allt en ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu.“

Þess má svo geta að konur voru í meirihluta á bæjarstjórnarfundinum í dag eða fimm af níu bæjarfulltrúum. Þar munaði um varabæjarfulltrúana Dýrunni Pálu Skaftadóttur og Hjördísi Helgu Seljan Þóroddsdóttur, sem sátu fundinn ásamt bæjarfulltrúunum Kristínu Gestsdóttur, Eydísi Ásbjörnsdóttur og Pálínu Margeirsdóttur.

Þetta var jafnframt síðasti bæjarstjórnarfundur ársins. Bæjarstjórn kemur saman á nýju ári 8. janúar nk.

 

 

Frétta og viðburðayfirlit