mobile navigation trigger mobile search trigger
03.11.2023

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2024 – fyrri umræða í bæjarstjórn.

Tillaga að fjárhagsáætlun ársins 2024, ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2025 – 2027, var í gær, fimmtudaginn 2. nóvember 2023, lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2024 – fyrri umræða í bæjarstjórn.

Að venju samanstendur tillagan af tölulegri umfjöllun um annars vegar A-hluta bæjarsjóðs og hins vegar A- og B-hluta, ásamt greinargerð.  Í A-hluta er aðalsjóður og eignasjóðir, en í B-hluta eru veitustofnanir auk hafnarsjóðs, félagslegra íbúða og sorpstöðvar.   Þá er líkt og síðustu ár áætlunin sett fram sameinuð í eina fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og svo næstu þriggja ára.  Þá er að finna í henni frekari ítarupplýsingar um fjölbreyttan rekstur Fjarðabyggðar

Heildartekjur samstæðu A og B hluta eru áætlaðar rúmir 10,7 milljarðar króna á árinu 2024 en heildar rekstrarkostnaður rúmir 9,5 milljarða króna. Þar af eru launaliðir tæplega 6,1 milljarður króna, annar rekstrarkostnaður um 3,4 milljarðar króna og afskriftir um 651 milljónir króna.  Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar tæpir 8,6 milljarðar króna en heildar rekstrarkostnaður tæpir 8 milljarðar króna.  Þar af eru launaliðir tæplega 5,6 milljarðar króna, annar rekstrarkostnaður um  2,1 milljarður króna. og afskriftir um 301 milljónir króna.

Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta fyrir fjármagnsliði í árslok 2024 er áætlaður 1,6 milljarðar króna. Þar af er rekstrarafgangur A hluta 610 milljónir króna. Að teknu tilliti til fjármagnsliða verður rekstrarafgangur samstæðunnar 688 milljónir króna en rekstrarafgangur í A hluta að fjárhæð 205 milljónir króna.  Hrein fjármagnsgjöld samstæðu eru áætluðuð 469 milljónir króna og 404 milljónir króna hjá A-hluta.

Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar rúmlega 10,9 milljarðar króna í árslok 2024 hjá samstæðu A og B hluta og um 11,4 milljarðar króna hjá A hluta. Þar af eru reiknaðar lífeyrisskuldbindingar um 3,7 milljarðar króna hjá samstæðu og rúmlega 3,4 milljarðar hjá A-hluta.  Langtímaskuldir við lánastofnanir eru áætlaðar í árslok 2024 hjá samstæðu A og B hluta um 5,5 milljarðar króna og 4,1 milljarður króna hjá A hluta.

Í sjóðstreymisyfirliti er handbært fé frá rekstri í samstæðu 2024 áætlað tæpur 1,5 milljarður króna, afborganir langtímalána eru áætlaðar 430 milljónir króna og fjárfestingar samstæðu í A og B hluta  rúmlega 983 milljónir króna.  Handbært fé frá rekstri A hluta er áætlað að nemi um 597 milljónum króna og afborganir langtímalána eru áætlaðar  330 milljónir króna í A hluta.

Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2024 er framlegðarhlutfall (EBIDTA) um 16,9% í samstæðu og 10,6% í A hluta.

Áætlunina sem lögð var fram við fyrri umræðu sl. fimmtudag má nálgast hér: Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2024 - 2027 - fyrri umræða í bæjarstjónr 02.11.2023.pdf

Upptöku af 362. fundi bæjarstjórnar þar sem fyrr umræða fór fram á finna hér

Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.

Frétta og viðburðayfirlit