mobile navigation trigger mobile search trigger
30.10.2014

Framkvæmdum við snjóflóðavarnir að ljúka

Senn sér fyrir endann á framkvæmdum við snjóflóðavarnir í Tröllagili ofan við Neskaupstað. Framkvæmdir við þessi tröllvöxnu mannvirki hafa þá staðið um tæplega þriggja ára skeið eða frá því á fyrri hluta ársins 2011.

 

Framkvæmdum við snjóflóðavarnir að ljúka
Stoðvirki eru á uppstökusvæði snjóflóða í 500 til 700 metra hæð og var lokið við uppsetningu þeirra í september 2012. Hér má sjá þyrlu við flutning á stálgrindum fyrir stoðvirkin.

Senn sér fyrir endan á framkvæmdum við snjóflóðavarnir í Tröllagili ofan við Neskaupstað. Sjálfur varnargarðurinn er fullgerður, ásamt 13 keilum sem standa í tveimur röðum ofan garðsins. Framkvæmdir við þessi tröllvöxnu mannvirki hafa þá staðið um tæplega þriggja ára skeið eða frá því á fyrri hluta ársins 2011. 

Mannvirkin samanstanda af 660 metra löngum þvergarði, um 420 metra löngum leiðigarð og 24 snjóflóðavarnarkeilum, auk stoðvirkja í 500 til 700 metra hæð. Samhliða verkinu verða gerðir vegslóðar og göngustígar ásamt minningarreit tileinkuðum þeim sem fórust í mannskæðu snjóflóði sem féll á byggðina árið 1974.

Verkinu í heild sinni lýkur svo næsta sumar, en enn er nokkuð eftir af yfirborsfrágangi, s.s. göngustígagerð og uppgræðsla svæðisins. Einnig verða sett upp upplýsingaskiliti um varnarmannvirkin og minningarreitur gerður í minningu þeirra sem fórust í snjóflóðunum sem féllu á Neskaupstað árið 1974.

Snjóflóðahætta við Neskaupstað er talin mest neðan Drangagils og Tröllagilja. Varnargarðar við Drangagil voru fullgerðir árið 2002 og með snjóflóðavörnum í Tröllagili verður byggðin neðan Tröllagiljasvæðis einnig varin.

Um frumhönnun varnargarða og stoðvirkja sá Verkís ehf. en verkhönnun varnargarða vann Efla ehf. ásamt Landmótun sf. sem sá einnig um landslagshönnun. Verkkaupar eru Fjarðabyggð og Ofanflóðasjóður, en umsjón með framkvæmdum hefur Framkvæmdasýsla ríkisins.

Snjóflóðavarnir í Tröllagili eru annar áfanginn af fjórum í ofanflóðavörnum vegna þéttbýlisins í Neskaupstað.  Þriðji og fjórði áfangi snúa að Urðarbotnum annars vegar, sem eru á milli Tröllagild og Drangagils og Nes-og Bakkagili hins vegar austan Tröllagils. 

 

Síðast uppfært 11.11.2014

Fleiri myndir:
Framkvæmdum við snjóflóðavarnir að ljúka

Frétta og viðburðayfirlit