mobile navigation trigger mobile search trigger
25.07.2014

Franski spítalinn opnar á ný

Frönsku húsin á Fáskrúðsfirði verða formlega opnuð laugardaginn 26. júlí nk. kl. 14:00 að viðstöddum Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Samhliða opnar formlega safnasýning Fransmanna á Íslandi og verður aðgangur ókeypis af því tilefni að safninu um daginn. 
 
Franski spítalinn opnar á ný
Uppdráttur af franska verkefninu. Ofan Hafnarstrætis standa Litla kapellan og Sjúkraskýlið annars vegar og Læknishúsið hins vegar. Neðan götu er Franski spítalinn ásamt Líkhúsinu að vestanverðu. Einnig má sjá bryggjuna sem gengur út í fjörðinn fyrir neðan Franska spítalann. Hún var lögð í samstarfi Minjaverndar og Fjarðabyggðahafna.
Franski spítalinn hefur verið tekinn aftur í notkun eftir meira en hálfrar aldar hlé, ásamt fjórum öðrum sögufrægum húsum sem Frakkar reistu á Fáskrúðsfirði um og upp úr aldamótunum 1900. Þar með er stærsta verkefni Minjaverndar utan höfuðborgarsvæðisins lokið.
 
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Minjaverndar, taka þátt í einfaldri opnunarathöfn sem fram fer við Franska spítalann, 26. júlí nk. kl. 14:00 að viðstöddum Marc Bouteiller, sendiherra Frakklands á Íslandi, Berglindi Ásgeirsdóttur, sendiherra Íslands í Frakklandi, Lionel Tardy, formanni frönsk-íslensku samstarfsnefndar franska þjóðþingsins, Jean-Yves de Chaisemartin, borgartjóra í Paimpol, Michèle Kerckhof, varaborgarstjóra Gravelines og fleirum.

Auk þess sem frönsku húsin verða tekin formlega í notkun, verður safnasýningin Frakkar á Íslandsmiðum einnig opnuð formlega. Sýningin er í Læknishúsinu og göngum sem liggja undir Hafnargötu og tengja húsið við Franska spítalann. Sýningin er á vegum Fransmanna á Íslandi, nýjasta safnsins í eigu Fjarðabyggðar og hefur hún vakið verðskuldaða athygli fyrir nýstárlega og áhrifaríka nálgun við viðfangsefnið.
 
Veittur verður ókeyps aðgangur að safninu frá kl. 15:00 til 18:00, laugardagsinn 26. júlí, í tilefni þess að safnið opnar formlega.
 
Frönsku hlúsin eru í eigu Minjaverndar. Megináhersla var lögð á að varðveita upprunalegt útlit og afstöðu þeirra. Helsta undantekningin í þeim efnum er staðsetning Franska spítalans, sem stendur vestar en áður og neðan götu, gegnt Læknishúsinu. Einnig var áhersla lögð á að nýta sem kostur var upprunalegt byggingarefni og tókst að endurnýta um 25-30% af því.
 
Endurgerð frönsku húsanna má rekja aftur til ársins 2009, en 19. september það ár undirrituðu Minjavernd, Fjarðabyggð, Alliance Française á Íslandi og Gravelines-borg viljayfirlýsingu um endurgerð Minjaverndar á Franska spítalanum. Áhugi á varðveislu húsanna hafði þá farið vaxandi um talsvert skeið.  
 
Á þeim tæpu fimm árum sem liðin eru frá því að verkefninu var hrundið af stað, hefur Minjavernd endurbyggt fimm hús með arfleifð franskra sjómanna og samskipti við heimamenn sem leiðarstef. Þau eru auk Franska spítalans og Læknishússins, Litla kapellan, Sjúkraskýlið og Líkhúsið. Þar af voru Sjúkraskýlið og Likhúsið byggð frá grunni.
 
Þessi sögufrægu hús hafa nú endurheimt sinn fyrri sess í bæjarmynd Fáskrúðsfjarðar, en í nýju hlutverki eða sem hótel, veitingastaður og safnahús Fransmanna á Íslandi. Litla kapellan er eina húsið sem gegnir upprunalegu hlutverki sínu sem guðshús, en blessun hennar fer fram fyrr um daginn. Aðalhönnuðir húsanna eru Argos ehf. Arkitektastofa Grétars og Stefáns. Aðalhönnuður Fransmanna á Íslandi er Árni Páll Jóhannsson, leikmyndahönnður. Haf minninganna, sem myndað er úr nöfnum þeirra frönsku sjómanna sem fórust við Íslands, hannaði Gagarín, en talið er að hátt í fimm þúsund sjómenn hafi farist með um 400 skútum á árunum 1830 til 1930.
 
 
 
Fleiri myndir:
Franski spítalinn opnar á ný
Franski spítalinn opnar á ný
Franski spítalinn opnar á ný
Franski spítalinn opnar á ný

Frétta og viðburðayfirlit