mobile navigation trigger mobile search trigger
07.02.2014

Fyrsta áfanga vegna stækkunar Norðfjarðarhafnar að ljúka

Vinna við stækkun Norðfjarðarhafnar gengur vel.  Unnið hefur verið að krafti við jarðvinnu og dýpkun hafnarinnar en niðurrekstur stálþils hefst á næstunni. Auk þess hefur verið unnið við smíði nýrrar löndunarbryggju fyrir smábáta.

Fyrsta áfanga vegna stækkunar Norðfjarðarhafnar að ljúka

Hérðsverk hefur að mestu lokið við fyrsta áfanga jarðvinnu vegna stækkunar Norðfjarðarhafnar en unnið er að ýmsum smærri verkum þessa dagana.  Jafnframt hefur Björgun lokið fyrsta áfanga við dýpkun hafnarinnar og er dýpkunarskipið Perlan farin suður, a.m.k. í bili.  Gröfupramminn er þó enn á svæðinu og vinnur við lokafrágang.  Búið er að dæla um 140 þúsund m3 af efni í garðstæðið undir nýja garðinn en um 50 þúsund m3 eiga eftir að bætast við úr eldri garðinum þegar hann verður fjarlægður á vormánuðum. Bæði fyrirtækin hefjast svo handa í apríl við lokasprett stækkunarinnar.

Framkvæmdir við stálþil eru að hefjast en fyrirtækið Hagtak sér um þann verkþátt.  Reiknað er með að niðurrekstur þilsins hefjist um miðjan febrúar.

Samhliða þessum framkvæmdum hefur Guðmundur Guðlaugsson bryggjusmiður, unnið við smíði nýrrar löndunarbryggju fyrir smábáta. Því verki hefur miðað vel þrátt fyrir erfiða tíð og er verktaki langt á undan áætlun með verkið.  Útlit er fyrir að verktaki ljúki við verkið í febrúar en áætluð verklok voru 15. apríl 2014.

Frétta og viðburðayfirlit