mobile navigation trigger mobile search trigger
15.07.2014

Hvernig vinnum við að framtíðarsýn aðalskipulags og á hvað leið erum við í miðbæ Reyðarfjarðar ?

Grein Páls Björgvins Guðmundssonar bæjarstjóra um skipulagsmál í miðbæ Reyðarfjarðar.

Hvernig vinnum við að framtíðarsýn aðalskipulags og á hvað leið erum við í miðbæ Reyðarfjarðar ?

Nokkur umræða fer fram þessa dagana um skipulagsmál og starfsleyfi til fyrirtækja við Hafnargötu á Reyðarfirði, en samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins er svæðið skilgreint sem miðsvæði. Stefna sveitarfélagsins er að  í framtíðinni muni þar þróast og verða til miðbæjarkjarni, sem vissulega er kominn vísir að. Vegna þeirrar umræðu sem nú fer fram um þessi mál, er mikilvægt að koma á framfæri nokkrum staðreyndum og sjónarmiðum sem skipta máli og eiga erindi í umræðuna.

Samkvæmt Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 er Hafnargata innan skilgreinds miðsvæðis Reyðarfjarðar. Á miðsvæðum er gert ráð fyrir alhliða miðbæjarstarfsemi, verslunar- og þjónustustarfsemi, veitingastarfsemi, menningarstarfsemi og stjórnsýslu. Einnig er gert ráð fyrir að íbúðabyggð sé hluti landnýtingar á miðsvæðum. Segja má að aðalskipulag sveitarfélags sé sú framtíðarsýn sem mörkuð hefur verið um landnýtingu á viðkomandi svæði.

Til að virkja aðalskipulagið og koma því í framkvæmd, er unnið deiliskipulag sem er nánari útfærsla á aðalskipulaginu og byggist á þeirri stefnu sem er sett fram í því. Oftast er deiliskipulag unnið þegar myndast hefur eftirspurn eftir lóðum eða svæðum.  Byggingaframkvæmdir eru bundnar í skipulagi, með því að ákveðin möguleg byggingaráform eru afmörkuð með deiliskipulagsuppdrætti, þ.e. hvað má gera á ákveðnu svæði.

Staðreyndin er sú að ekki liggur fyrir deiliskipulag, í takt við aðalskipulag, á því svæði sem Hafnargata á Reyðarfirði nær til. Hafnargatan er innan deiliskipulags Fiskihafnar á Reyðarfirði,  sem staðfest var 6. júní 1999. Samkvæmt  greinargerð með deiliskipulaginu er notkun svæðisins ætlað fyrir atvinnuhúsnæði, þ.e. iðnað, fiskvinnslu, birgðastöðvar og aðra skylda starfsemi.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands gefur út starfsleyfi til fyrirtækja, á grundvelli fyrirliggjandi deiliskipulags skv. lögum. Þegar um umdeild mál er að ræða er leitað eftir sjónarmiðum viðkomandi sveitarfélags. Sveitarfélagið getur mótmælt fyrirhuguðu starfsleyfi eða haft áhrif á málið, t.d. með því að óska eftir að lögmæt og málefnalega skilyrði séu sett ákveðinni starfsemi m.a. til að aðlaga betur að framtíðarsýn um landnotkun og með tilliti til hagsmuna sem fylgja landnotkun á nálægum lóðum.

Sveitarfélagið kann að vera á móti ákveðinni starfsemi á tilteknu svæði, vegna þeirrar sýnar sem aðalskipulagið segir til um, en með því að ganga þannig í berhögg við gildandi deiliskipulag væri verið að „hrinda“ nýja deiliskipulaginu á ómarkvissan hátt í framkvæmd án hefðbundins ferils við slíka vinnu. Sú ófaglega nálgun myndi að öllum líkindum leiða af sér skaðabótaskyldu sveitarfélagsins gagnvart eiganda viðkomandi eignar, þar sem eigandi gæti ekki nýtt eign sína lengur til þess að hafa af henni tekjur eða nýta hana til annarrar atvinnustarfssemi. Hugsanlega gæti sveitarfélagið samið eða tekið eignina yfir og greitt fyrir samkvæmt matsverði. Í framhaldi af því kæmu upp spurningar hvort rífa ætti viðkomandi eign, finna henni nýtt hlutverk o.s.frv. Það gæti líka verið vandkvæðum háð meðan ekki er til deiliskipulag, því verð eigna getur breyst allt eftir því hvernig deiliskipulagið þróast. Með aukinni eftirspurn eftir þjónustuhúsnæði, sem aðalskipulagið gerir ráð fyrir að skapist og kemur til með tímanum, skapast tækifæri fyrir fasteignaeigendur á svæðinu að breyta nýtingu eigna sinna. Það er því óráðlegt að setja fjármuni sveitarfélagsins í uppkaup á eignum nema að vel athuguðu máli. Og nóg er af verkefnum til þess að setja takmarkað fjármagn til, svo mikið er víst.

Sveitarfélagið á því ekki marga kosti, þegar leitað er eftir starfsleyfi sem er í takt við deiliskipulagið, aðra en að koma fram sjónarmiðum og skilyrðum sem standast lög og reglur. Slíka afgreiðslu má m.a. sjá í fundargerð bæjarráðs frá 4. júlí 2014 (www.fjardabyggd.is) vegna starfsleyfis til Samskipa að Hafnargötu 5. Það starfsleyfi er líka til takmarkaðs tíma og gefur sveitarfélaginu ráðrúm til þess að vinna deiliskipulag í átt að aðalskipulagi og fjalla þannig um framtíð svæðisins með heildstæðum hætti. Hefja þarf þá vinnu sem fyrst en umfram allt finna þá þjónustu sem miðbærinn mun hýsa.

Aðalatriðin eru þessi: Sveitarfélagið er á ákveðinni leið við  að byggja upp miðbæ á Reyðarfirði. Umhverfi hafnarsvæðisins hefur verið tekið í gegn svo eftir hefur verið tekið og er grunnur að allri skipulagsvinnu. Sveitarfélagið hefur keypt gamlar eignir og rifið, s.d. gömlu mjölskemmurnar, sett skilyrði um aðra starfsemi, t.d. með gerð skjólveggja til að hlífa þeim vísi að miðbæ sem þegar hefur myndast, aðkeyrslum að atvinnuhúsnæði hefur verið breytt og síðan hefur verið lagt til að starfsleyfi séu gefin út til skemmri tíma. Allt leiðir þetta að þeirri framtíðarsýn sem felst í aðalskipulaginu. En allt hefur sinn tíma. Ef allt á að gerast strax, kostar slíkt fjármuni og hugsanlega óþarfa fjárútlát eins og skýrt var út hér að framan. En tíminn líður hratt og fimm ár í þessu samhengi er ekki langur tími.

Að lokum vil ég koma því skýrt á framfæri að sveitarfélagið hefur unnið faglega í þessum málum, farið varlega, skoðað málin gaumgæfilega og fengið til þess lögfræðilega aðstoð. Markmiðið er að skapa samfélaginu sem minnst fjárhagslegt tjón, en um leið koma málum í þann farveg að í átt til aðalskipulagsins sé gengið.

Fagleg vinnubrögð eru mikilvæg, þar sem tekið er á málum í heild sinni, í stað þess að fjalla um hvert einstakt mál. Slík vinnubrögð munu á endanum, skila ásættanlegri niðurstöðu fyrir alla aðila.

Ég hvet íbúa til þess að heyra í mér varðandi þessi mál ef spurningar eða vangaveltur eru fyrir hendi í síma 470-9000 eða bóka viðtal í sama síma.

  

Páll Björgvin Guðmundsson

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar

Frétta og viðburðayfirlit