mobile navigation trigger mobile search trigger
30.12.2014

Eva Dögg Jóhannsdóttir er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2014

Íþróttamaður Fjarðabyggðar var valinn við hátíðlega athöfn í Grunnskóla Reyðarfjarðar mánudaginn 29. desember.
Fyrir valinu varð Eva Dögg Jóhannsdóttir Ungmennafélaginu Val Reyðarfirði.

Eva Dögg Jóhannsdóttir er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2014
Frá vinstri Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri, Eva Dögg Jóhannsdóttir íþróttamaður Fjarðabyggðar 2014, Kristín Gestsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar og Guðmundur Halldórsson íþrótta- og tómstundafulltrúi.

Eva Dögg átti gríðarlega gott ár í glímunni, hún lenti í 1. sæti í flokki kvenna -65 kg og 2. sæti í opnum flokki í Landsflokkaglímu Íslands. Þá sigraði hún í backhold í opnum flokki kvenna á Hálandaleikunum í Skotlandi á árinu og gekk vel með glímulandsliðinu á öðrum mótum. Eva lenti í 2. sæti á Íslandsmótinu eftir harða baráttu um Freyjumenið.

Eva Dögg var valin glímukona ársins 2014 hjá glímusambandinu auk þess sem hún var valin íþróttamaður ársins hjá UÍA.

Í umsögn frá ungmennafélaginu Val sem fylgdi tilnefningunni segir:

„Eva Dögg er metnaðarfull og viljasterk. Hún er fylgin sér og hefur mikið og gott keppnisskap. Hún er lipur og sterk og í stöðugri framför. Eva er óeigingjörn og ætíð tilbúin að hjálpa til við hvers kyns verkefni sem koma upp og varða glímuna og félagsstarf hjá Val. Eva Dögg var í ár kosin í stjórn Glímusambands Íslands. Hún er góð í að segja til og góður félagi. Hún er búin að ná sér í dómararéttindi í glímu og dæmir hjá yngri keppendum.“

Aðrir sem tilnefndir voru til íþróttamanns Fjarðabyggðar 2014
Ásbjörn Eðvaldsson – skíðamaður, Austra Eskifirði
Björgvin Stefán Pétursson – knattspyrnumaður, Leikni Fáskrúðsfirði
Guðbjartur Hjálmarsson – hestamaður, Blæ
Stefán Þór Eysteinsson – knattspyrnumaður, Þrótti Neskaupstað
Þorvaldur Marteinn Jónsson – skíðamaður, Skíðafélagi Fjarðabyggðar.

Auk þess að heiðra ofantalda voru veittar viðurkenningar til þeirra einstaklinga sem hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á árinu.

Við óskum Evu og öðrum afreksíþróttamönnum í Fjarðabyggð til hamingju með viðurkenningarnar og óskum þeim velfarnaðar á nýju ári.

 

 

Fleiri myndir:
Eva Dögg Jóhannsdóttir er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2014
Þeir sem tilnefndir voru til íþróttamanns Fjarðabyggðar 2014 og fulltrúar þeirra.
Eva Dögg Jóhannsdóttir er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2014
Einstaklingar sem tóku þátt í landsliðsverkefnum á árinu 2014.

Frétta og viðburðayfirlit