mobile navigation trigger mobile search trigger
24.11.2014

Fulltrúi Knellunnar á Eskifirði sigrar í söngkeppni SamAust

Sesselja Bára Jónsdóttir, fulltrúi Knellunnar á Eskifirði, var sigurvegari í söngkeppni SamAust, sem fram fór í Atóm á Norðfirði. Hellirinn á Fáskrúðsfirði náði öðru sæti í hönnunarkeppninni Stíll.

 

Fulltrúi Knellunnar á Eskifirði sigrar í söngkeppni SamAust
Glæsilegur sigur. Sesselja Bára Jónsdóttir, frá Knellunni á Eskifirði, fór með sigur af hólmi í söngkeppni SamAust sl. föstudag.

Sesselja Bára Jónsdóttir, fulltrúi Knellunnar á Eskifirði, var sigurvegari í söngvakeppni SamAust. Í hönnunarkeppninni Stíll hömpuðu fulltrúar Þrykkjunnar á Höfn fyrsta sæti, en Hellirinn á Fáskrúðsfirði náði öðru sæti.

Ungmennahátíðin SamAust fór fram með glæsibrag í Egilsbúð á Norðfirði. Félagsmiðstöðinni Atóm hafði að þessu sinni veg og vanda af hátíðinni, sem yfir 300 ungmenni sóttu frá 12 félagsmiðstöðvum af öllu Austurlandi eða allt frá Höfn í Hornafirði í suðri að Vopnafirði í norðri. Hæfileikakeppni skipaði að vanda stóran sess, með undankeppi í annars vegar söngkeppni Samfés og hins vegar Stíl, hönnunarkeppni samtakanna, en í báðum tilvikum er keppt um þátttökurétt í lokakeppni.

Alls kepptu 13 söngatriði og var mjótt á munum í þessari mjög svo jöfnu keppni. Að lokum fóru leikar svo, að Sesselja Bára sigraði með flutningi á „Heyr mína bæn“ og hefur hún því áunnið sér þátttökurétt á lokakeppni Samfés sem fram fer í Laugardalshöll á næsta ári. Þar keppa 30 atriði af landinu öllu til úrslita, auk þess sem veitt eru sérstök verðlaun fyrir besta frumsaminn texta á íslensku.

Í öðru sæti var Valný Lára Jónsdóttir, frá Nýjung á Egilsstöðum, sem flutti lagið „Shontelle“ eða „Ógleymanlegt“, en textann íslenskaði hún sjálf. Í þriðja sætinu voru þau Lára Snædal, sem er einnig frá Nýjung á Egilsstöðum og Sigurjón Trausti, Afreki í Fellabæ, með frumsamið lag sem nefnist „Sólarlag“.  Eins og áður segir var keppnin jöfn og áttu dómarar erfitt val fyrir höndum, en þeir voru Sigurjón Egilsson, hetjutenor, Elsa Sigrún Elísdóttir, stórsöngkona og Idol-stjarnan Hrafna Hanna Elísa.

Í hönnunarkeppninni sigruður þær Malín Ingadóttir, Margrét Líf og Hafdís Rut, allar frá Þrykkjunni á Höfn, en lokakeppni Stíls fer fram í Hörpu nú um næstu helgi. Tækni var að þessu sinni þema keppninnar, sem var einnig bæði jöfn og spennandi, en til leiks voru skráð tíu afar vel og skemmtilega útfærð atriði.

Í öðru sæti voru Dagný Sól, Elísabet Eir, Anna Björg og Amila, sem tóku þátt fyrir hönd Hellisins á Fáskrúðsfirði. Þriðja sætinu náðu svo Ragnheiður Inga, Ástrós Aníta og Ingibjörg María, sem eru eins og sigurvegararnir einnig frá Þrykkjunni. Í dómnefnd hönnunarkeppninnar áttu sæti Hákon Guðröðarson, tískufrömuður, Guðrún Smáradóttir, stílisti og Rósa Dögg Þórsdóttir, hárgreiðslumeistari.

Af öðru á fjölbreyttri hátíðardagskránni má nefna sundferð, sem Sundlaug Norðfjarðar bauð til og skemmtu þátttakendur sér konunglega í Dóra rauða, einni lengstu sundrennibraut landsins. Þá bauð Egilsbúð í pizzuhlaðborð og var að því loknu slegið upp í heljarinnar dansleik.

SamAust er samstarfsvettvangur félagsmiðstöðva á Austurlandi. Samfés eru Samtök félagsmiðstöðva á Íslandi.

Fleiri myndir:
Fulltrúi Knellunnar á Eskifirði sigrar í söngkeppni SamAust
Fulltrúi Knellunnar á Eskifirði sigrar í söngkeppni SamAust
Fulltrúi Knellunnar á Eskifirði sigrar í söngkeppni SamAust
Fulltrúi Knellunnar á Eskifirði sigrar í söngkeppni SamAust
Fulltrúi Knellunnar á Eskifirði sigrar í söngkeppni SamAust
Fulltrúi Knellunnar á Eskifirði sigrar í söngkeppni SamAust

Frétta og viðburðayfirlit