mobile navigation trigger mobile search trigger
04.12.2014

Kveikt á jólatrénu á Stöðvarfirði

Um síðustu helgi þurfti að fresta tendrun ljósa á jólatrjánum vegna veðurs, í öllum bæjarhlutum Fjarðabyggðar nema einum. Á Stöðvarfirði létu menn og konur ekki leiðinlegt veður stoppa sig og kl. 17:00 á laugardaginn hófst dagskrá við tréð.

Kveikt á jólatrénu á Stöðvarfirði
Jólasveinninn var á Stöðvarfirði sl. miðvikudag. Hér má sjá hann á spjalli við tvo unga Stöðfirðinga. Ljósmynd: Solveig Friðriksdóttir.

Um síðustu helgi þurfti að fresta tendrun ljósa á jólatrjánum vegna veðurs, í öllum bæjarhlutum Fjarðabyggðar nema einum. Á Stöðvarfirði létu menn og konur ekki leiðinlegt veður stoppa sig og kl. 17:00 á laugardaginn hófst dagskrá við tréð.

Að venju kveiktu börn á leikskólaaldri á trénu eftir niðurtalningu og svo var dansað. Um fimmtíu manns voru við athöfnina, börn, foreldrar og áhugasamir bæjarbúar.  Nokkur lög voru sungin áður en sveinkarnir mættu á svæðið. Þeir voru tveir og mjög sprækir. Þeir voru með gítar og sungu nokkur lög. Sum voru poppuð hressilega upp við mikla kátínu viðstaddra.  Eitt barn hafði á orði þegar það þerraði hláturtárin að hún væri bara farin að gráta þetta væri svo skemmtilegt.

Þegar allir voru búnir að fá nægju sína af dansi og söng gáfu jólasveinarnir krökkunum mandarínur og nammipoka sem þeir voru með í fórum sínum.  Þeir gáfu sér góðan tíma til að spjalla við hvern og einn.

 

Síðustu ár hefur sú hefð fests í sessi á Stöðvarfirði, að bjóða upp á kakó og kökur eftir tendrun jólatrésins. Fyrst í stað var það einkaframtak Guðnýjar Sigurjónsdóttur og fjölskyldu sem opaði heimili sitt og bauð fólki heim. Í fyrra bauð Ferðahópurinn upp á kakó og piparkökur á pallinum hjá Villu og Sigga á Túngötunni og í ár bauð hópurinn upp á kakó með rjóma, piparkökur  og skúffuköku í Logalandi hjá Jónasi og Gurru. Þangað mætti hersingin eftir tendrunina og þáði kærkomna hressingu eftir rigningarvolkið.

 

Þetta var góð stund þrátt fyrir smá vætu, en enginn er jú verri þótt hann vökni.

Frétta og viðburðayfirlit