mobile navigation trigger mobile search trigger
18.12.2015

Landsnet endurnýjar jarðstrengi á Eskifirði

Framkvæmdir eru að hefjast við lagningu 132 kílóvolta (kV) jarðstrengja frá Stuðlalínu 2 sunnan Eskifjarðar að tengivirki Landsnets á Eskifirði og áfram þaðan að loftlínum ofan við bæinn. Áætlaður kostnaður er 125 milljónir króna og er stefnt að því að framkvæmdum ljúki á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

Landsnet endurnýjar jarðstrengi á Eskifirði

Verkið felst í endurnýjun á þeim köflum Stuðlalínu 2 og Eskifjarðarlínu 1 sem eru í jörð á Eskifirði. Annars vegar verður lagður 1.200 metra langur jarðstrengur frá endastæðu Stuðlalínu 2, sunnan Eskifjarðar, að tengivirki á Eskifirði og hins vegar um 260 metra langur strengur frá tengivirkinu að endastæðu Eskifjarðarlínu 1, ofan við bæinn.

Vinna við þverun Eskifjarðarár hefst fyrir áramót en skurður fyrir strengi verður grafinn eftir áramót. Í framhaldinu verður hafist handa við lagningu strengjanna og er stefnt að spennusetningu á fyrsta ársfjórðungi 2016, en endanleg dagsetning ræðst af gangi framkvæmda og veðri.
Kaup á strengefni voru boðin út í sumar og var samið við Telefonika í Póllandi. Lagning strengsins var einnig boðinn út og var samið við Yl ehf. á Egilsstöðum um verkið. Breyta þarf endastæðum beggja loftlínanna og mun vinnuflokkur Landsnets annast það verk, ásamt því að sjá um tengingar strengsins.

Framkvæmdirnar eru liður í styrkingu svæðiskerfis Landsnets á Austurlandi þar sem núverandi strengir anna ekki áætlaðri framtíðarnotkun á svæðinu og hljóðar kostnaðaráætlun verksins upp á 125 milljónir króna.

Viðbúið er að framkvæmdirnar valdi tímabundnum truflunum, einkum næst framkvæmdasvæðinu, og eru íbúar á Eskifirði, sem og aðrir, beðnir velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.

Frétta og viðburðayfirlit