mobile navigation trigger mobile search trigger
18.10.2014

Líf sem vert er að lifa

Opnunarhátíð Hulduhlíðar fór fram í dag fyrir fullu húsi. Húsnæðið sem hjúkrunarheimilið fékk afhent til notkunar er það fyrsta hér á landi sem uppfyllir nýjar kröfur stjórnvalda  um friðhelgi íbúa og heimilishagi.

 

Líf sem vert er að lifa
Lykillinn góði mundaður. F.v. Halldóra Vífilsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Framkvæmdarsýslu ríkisins, Jens Garðar Helgason, fulltrúi heilbrigðisráðherra, Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, Árni Helgason, framkvæmdastjóri Hulduhlíðar og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Opnunarhátíð Hulduhlíðar fór fram í dag fyrir fullu húsi. Um 300 gestir samglöddust íbúum á þessum merku tímamótum og skoðuðu sig um í nýjum heimkynnum hjúkrunarheimilisins á Eskifirði.

Hátíðin var haldin í tilefni þess að Hulduhlíð fékk þetta nýtt og glæsilegt húsnæði að Dalbraut 1b formlega afhent til notkunar. Fulltrúi heilbrigðisráðherra, Jens Garðar Helgason, afhenti Jóni Birni Hákonarsyni, forseta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, táknrænan lykil, sem hangir nú á vegg í miðlægu rými hjúkrunarheimilisins.

Að afhendingu lokinni blessaði sr. Davíð Baldursson nýju heimkynnin. Blásarasveit Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar og karlakórinn Glaður lögðu sitt af mörkum til þessa ánægjulega dags með frábærum tónlistarflutningi.

Til stóð að Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, kæmi að afhendingunni, en varð af óviðráðanlegum ástæðum að afboða sig og hljóp Jens Garðar Helgson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, í skarðið. 

Nýja húsnæðið samanstendur af þremur húsum og sameiginlegu miðrými. Gengist var fyrir opinni hugmyndasamkeppni í Fjarðabyggð um heiti húsanna, sem hafa verið nefnd Holt, Hús og Sel.

Þá voru dvalarheimilinu færðar góðar gjafir í tilefni dagsins.  Tók Árni Helgason, framkvæmdastjóri Hulduhlíðar, við bókagjöf, sem Halldóra Vífilsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri, afhenti f.h. Framkvæmdasýslu ríkisins og standlyftu, sem Janne Sigurðsson, forstjóri, afhenti Hulduhlíð að gjöf f.h. Alcoa Fjarðaáls.

Starfsemi Hulduhlíðar flyst í nýja húsnæðið að Dalbraut 23. október nk. Með hönnun þess var brotið blað í sögu öldrunarmála landsmanna, en grunnskipulag bygginga uppfyllir fyrst hjúkrunarheimila nýjar kröfur stjórnvalda um friðhelgi íbúa og heimilishagi.

Þessar nýju skipulagskröfur falla vel að Eden hugmyndafræðinni sem Hulduhlíð starfar eftir. Höfundur hennar er bandaríski læknirinn William Thomas, sem komst með rannsóknum sínum að því að einmanaleiki, vanmáttarkennd og leiði eru aðalástæður vanlíðunar hjá íbúum hjúkrunarheimila. Þá vanti innihald í lífið – tilgang til að lifa. Með Eden hugmyndafræðinni er unnið gegn þessum þáttum til þess að auka lífsgæði íbúanna svo að þeir eignist líf sem vert er að lifa.

Tengt efni:

Eldri frétt um opnunarhátíð Hulduhlíðar

Frétt á RÚV

 

Fleiri myndir:
Líf sem vert er að lifa
Líf sem vert er að lifa
Líf sem vert er að lifa
Líf sem vert er að lifa
Líf sem vert er að lifa
Líf sem vert er að lifa
Líf sem vert er að lifa
Líf sem vert er að lifa
Líf sem vert er að lifa

Frétta og viðburðayfirlit