mobile navigation trigger mobile search trigger
11.12.2014

Opinn hugmyndafundur Stöðvarfirði

Verkefnahópur um sóknarfæri Stöðvarfjarðar gekkst fyrir opnum hugmyndafundi í menningarsal Sköpunarmiðstöðvarinnar í gær. Umræðan einkenndist af áræðni og samstöðu íbúa.

 

Opinn hugmyndafundur Stöðvarfirði
Það var heldur betur kveikt á perunni í gær, á opnum hugmyndafundinum á Stöðvarfirði.

Verkefnahópur um sóknarfæri Stöðvarfjarðar gekkst fyrir opnum hugmyndafundi í Sköpunarmiðstöðinni í gær. Í heild sinni einkenndist umræðan af áræðni og samstöðu íbúa. Mikilvægt sé að hlúa vel að vaxtarsprotum staðarins, svo að þeir nái að vaxa og dafna. Það sé jafnvel mikilvægara en að finna upp ný „hjól“ fyrir framgang staðarins.

Á meðal fjölmargra hugmynda sem voru ræddar, var staða Stöðvarfjarðar sem anddyri Fjarðabyggðar til suðurs. Á hverju ári sækir mikill fjöldi ferðamanna byggðina heim á leið sinni í Steinasafn Petru og feli sú umferð í sér sóknarfæri fyrir ekki aðeins heimamenn heldur sveitarfélagið í heild sinni í þjónustu við ferðamenn og framboði á afþreyingu.

Smábátahöfnin og höfnin eru og verða áfram lífæð staðarins að mati íbúa, enda þótt áherslur breytist í takt við breyttar aðstæður. Hafnir og ferðamenn eigi í mörgum tilvikum greiða samleið og vilja íbúar gjarnan sjá hafnarsvæðið lagað í auknum mæli að ferðaþjónustutengdri starfsemi.

Þessu tengt var einnig rætt um þörfina á því að laga, bæta og taka til í nærumhverfinu, bæði á einkalóðum og atvinnusvæðum staðarins. Í þeim efnum þurfi allir að taka höndum saman, íbúar jafnt sem fyrirtæki og sveitarfélag.

Í umræðunum kom einnig sú almenna afstaða fram að, Stöðfirðingar verði að vinna saman. Uppbygging Stöðvarfjarðar sé undir drifkrafti íbúanna komin og eftirfylgni þeirra. Nýstofnuð íbúasamtök gegni að því leyti lykilhlutverki, að þar geti Stöðfirðingar komið málefnum sínum á framfæri og sameinast um framgang þeirra með mun skilvirkara móti en áður. 

Þá var kallað eftir stuðningi frá öðrum íbúum Fjarðabyggðar, brottfluttum Stöðfirðingum og öðrum velunnurum staðarins. Allar góðar hugmyndir og ábendingar væru vel þegnar.

Mæting á fundinn var mjög góð og var kaffi og jólaöl og maulað á jólakökum á milli þess sem rætt var um sóknarfæri staðarins. Fundurinn fór fram í Menningarsal Sköpunarmiðstöðvarinnar, en þar var áður frystir gamla frystihússins, sem hýsir nú starfsemi Sköpunarmiðstöðvarinnar.

Í verkefnahópnum eiga sæti Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, 861 7595, asta.k.sigurjonsdottir@fjardabyggd.is; Ívar Ingimarsson, 857 3689, muggur77@hotmail.com og Rósa Valtingojer, 849 8630, rosa@inhere.is.

 

Frétta og viðburðayfirlit