mobile navigation trigger mobile search trigger
11.11.2015

Rannsókn á högum og líðan ungs fólks í Fjarðabyggð

Skýrsla Rannsóknar og greiningar á högum og líðan ungs fólks í 5. - 7. bekk í grunnskólum Fjarðabyggðar er komin á vef sveitarfélagsins.

Rannsókn á högum og líðan ungs fólks í Fjarðabyggð

Skýrslan sýnir niðurstöðu úr síðustu rannsókn, sem fram fór í febrúar sl. í öllum 5.-7. bekkjum landsins. Spurt var um m.a. samband við foreldra og fjölskyldu, vini, stríðni, nám og skóla og þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi.

Líðan ungs fólks er könnuð reglubundið á þriggja ára fresti og er í skýrslunni bornar saman niðurstöður á milli rannsókna. 

Helstu niðurstöður í Fjarðabyggð eru að tími með foreldrum hefur aukist frá síðustu könnun og samband við kennara er gott. Nemendur virðast vinafærri, stríðni hefur aukist hjá strákum og nemendur upplifa í auknum mæli að þeir séu skildir útundan.

Þá hefur ánægja með námið aukist og frekar að nemendur telji það of létt en of erfitt. Strákum þykir námið leiðinlegra en stelpum, en stelpum líður verr í kennslustundum en strákum. Líðan í frímínútum er góð.

Um fjórðungur nemenda upplifir ekki mikið hrós í skólanum og er það svipað og meðaltalið yfir landið. Reiðiköstum hefur fækkað, stelpur eiga erfiðara með svefn og gráta auðveldar en strákar.

Nemendur í tónlist eru mun fleiri í Fjarðabyggð en gengur og gerist á landinu. Íþróttaástundun er áþekk landsmeðaltali. Strákar eru meira í tölvuleikjum en stelpur og eru u.þ.b. 20% þeirra í meira en 4 tíma á dag í tölvuleikjum.

Skýrsla rannsóknar og greiningar var fyrr á árinu til umfjöllunar í fræðslunefnd, bæjarráði og bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Fræðslustjóra hefur verið falið að kynna niðurstöður fyrir skólastjórum og Fjarðaforeldrum og er stefnt að því að Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri Rannsókna og greininga, kynni helstu niðurstöður í Fjarðabyggð.

Skýrslan er hluti af heildarrannsókn á líðan ungs fólks yfir landið og birt var nýlega.

Ungt fólk og líðan í Fjarðabyggð - niðurstöður

Frétta og viðburðayfirlit