mobile navigation trigger mobile search trigger
18.12.2019

Sala Rafveitu Reyðarfjarðar

Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar í gær voru kaupsamningar við RARIK og Orkusöluna, um kaup á Rafveitu Reyðarfjarðar, staðfestir með sjö atkvæðum gegn tveimur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn sölunni og studdu ekki bókun sem fylgdi afgreiðslu bæjarstjórnar.

Sala Rafveitu Reyðarfjarðar

Um er er að ræða sölu í tveimur hlutum. Annars vegar samning við RARIK ohf. að fjárhæð 440 m.kr. um sölu á dreifikerfi og spennistöðvum Rafveitu Reyðarfjarðar auk tilgreinds búnaðar og tækja. Hins vegar samning að fjárhæð 130 m.kr. við Orkusöluna um sölu á raforkuviðskiptum Rafveitu Reyðarfjarðar, yfirtöku á samningum við Landsvirkjun ásamt rafstöð og stíflu.

Í bókun sem fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Fjarðalista, ásamt Miðflokknum, lögðu fram á fundinum kemur fram að RARIK og Orkusalan eru að fullu í opinberri eigu og með starfsemi á Austurlandi sem tryggir notendum Rafveitu Reyðarfjarðar öryggi og þjónustu á sama hátt og öðrum íbúum Fjarðabyggðar. Þetta telur bæjarstjórn mjög mikilvægt og er grundvallarástæða þess að til þessara fyrirtækja var leitað vegna sölu á rekstri Rafveitu Reyðarfjarðar. Um þetta atriði hefur verið samstaða í bæjarstjórn um nokkurt skeið.

Rafveita Reyðarfjarðar er síðasta dreifiveita rafmagns hér á landi, í beinni eigu og rekstri sveitarfélags. Að mati meirihluta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar er rekstrarumhverfi Rafveitunnar afar ótryggt þegar til framtíðar er litið. Það umhverfi og regluverk sem veitum er sett í núgildandi raforkulöggjöf er orðið verulega snúið og umfangsmikið, sér í lagi fyrir litlar rafveitur. Um langt árabil hefur Rafveita Reyðarfjarðar framleitt um 5% af því rafmagni sem hún endurselur en rúmlega 95% hafa verið keypt á heildsölumarkaði. Það, ásamt auknum kröfum í rekstrarumhverfi, samkeppni á raforkumarkaði og tæknilegum lausnum, gera Fjarðabyggð erfitt fyrir með áframhaldandi rekstur Rafveitu Reyðarfjaðar í núverandi starfsumhverfi. Í kynningu fjármálastjóra Fjarðabyggðar Snorra Styrkárssonar á málefnum Rafveitunnar, sem flutt var á íbúafundi á Reyðarfirði á mánudag, var fjallað nánar um ástæður sölunnar. Kynninguna má finna hér: Rafveita Reyðarfjarðar 16-12-2019 - Glærur úr fyrirlestri Snorra Styrkárssonar

Í bókun Framsóknarflokks, Fjarðalista og Miðflokks kemur einnig skýrt fram að það sé vilji bæjarstjórnar að þeir fjármunir sem sveitarfélagið fær í sinn hlut, eftir greiðslu skatta, af sölu þessari renni fyrst og fremst til uppbyggingar íþróttahúss á Reyðarfirði ásamt öðrum slíkum mannvirkjum og samfélagslegum verkefnum á Reyðarfirði. Farið verður í áætlanagerð og skipulag vegna þessa eftir að salan hefur gengið í gegn. Haldinn verður íbúafundur á Reyðarfirði í upphafi nýs árs þar sem farið verði yfir þá kosti sem í stöðunni eru í innviðauppbyggingu.

Jafnframt mun sveitarfélagið beita sér fyrir því í samningum við Orkusöluna að húsnæði rafstöðvar Rafveitu Reyðarfjarðar verði varðveitt og vel við haldið til framtíðar, enda um að ræða menningarleg verðmæti í sögu Reyðarfjarðar.

Bókun fulltrúa Framsóknar, Fjarðalista og Miðflokks varðandi málið hljómar svo:

Eins og bæjarstjórn hefur áður bókað, er Rafveita Reyðarfjarðar síðasta dreifiveita rafmagns hér á landi, í beinni eigu og rekstri á hendi sveitarfélags. Umhverfi og regluverk sem veitum er sett í núgildandi raforkulöggjöf er orðið verulega snúið og umfangsmikið. Um langt árabil hefur Rafveita Reyðarfjarðar framleitt um 5% af því rafmagni sem hún endurselur en rúmlega 95% hafa verið keypt á heildsölumarkaði. Það ásamt auknum kröfum í rekstrarumhverfi, samkeppni á raforkumarkaði og tæknilegum lausnum, gera sveitarfélaginu erfitt fyrir með áframhaldandi rekstur rafveitunnar í núverandi starfsumhverfi. Þetta er ástæða þess að bæjarstjórn samþykkir að selja RARIK og Orkusölunni, Rafveitu Reyðarfjarðar og starfsemi hennar. Báðir þessir aðilar eru sérhæfðir í rekstri rafmagnsveitna og sölu raforku í samkeppnisumhverfi. Þannig geta þeir nýtt stærðarhagkvæmni og veitt sömu þjónustu til viðskiptavina veitunnar til framtíðar. Þá eru RARIK og Orkusalan að fullu í opinberri eigu, með starfsemi á Austurlandi og þannig er tryggt að notendur rafveitunnar sitji við sama borð og aðrir landsmenn hvað varðar öryggi og þjónustu. Þetta telur bæjarstjórn mjög mikilvægt og er grundvallarástæða þess að til þessara fyrirtækja var leitað vegna sölu á rekstri Rafveitu Reyðarfjarðar.

Þá er það vilji bæjarstjórnar að þeir fjármunir sem sveitarfélagið fær í sinn hlut, eftir greiðslu skatta, af sölu þessari renni fyrst og fremst til uppbyggingar íþróttahúss Reyðarfjarðar ásamt öðrum slíkum mannvirkjum og samfélagslegum verkefnum á Reyðarfirði. Farið verður í áætlanagerð og skipulag vegna þessa eftir að salan hefur gengið í gegn. Jafnframt mun sveitarfélagið beita sér fyrir því í samningum við Orkusöluna að húsnæði rafstöðvar Rafveitu Reyðarfjarðar verði varðveitt og vel við haldið til framtíðar, enda um að ræða menningarleg verðmæti í sögu Reyðarfjarðar.

Haldinn var íbúafundur vegna málsins þann 16. desember sl. á Reyðarfirði og kynntar þar forsendur þessarar ákvörðunar og hvað liggur henni til grundvallar. Á þeim fundi komu fram ýmis rök og spurningar um málið sem svarað var. Bæjarstjórn ítrekar að hún nálgast málið af virðingu fyrir öllum rökum með og á móti sölu Rafveitu Reyðarfjarðar og hefur skilning á því að ekki eru allir sammála sölunni.

Frétta og viðburðayfirlit