mobile navigation trigger mobile search trigger
31.03.2021

Samkomulag við heilbrigðisráðuneytið um yfirfærslu starfa á hjúkrunarheimilum Fjarðabyggðar

Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar í dag var kynnt samkomulag sem náðst hefur við heilbrigðisráðuneytið um störf og réttarstöðu starfsfólks á Uppsölum og Hulduhlíð vegna yfirfærslu á starfsemi heimilanna til Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA). Bæjarstjórn samþykkti samkomulagið fyrir sitt leyti og fól bæjarstjóra undirritun þess.

Samkomulag við heilbrigðisráðuneytið um yfirfærslu starfa á hjúkrunarheimilum Fjarðabyggðar

Samkomulagið kveður á um að öllu starfsfólki hjúkrunarheimilanna, utan framkvæmdastjóra, verði boðið að starfa áfram á heimilunum á sömu kjörum og njóta sömu réttinda, þegar HSA tekur við rekstrinum þann 1. maí nk. Gerðir verða nýir ráðningasamningar sem endurspegla þessa ákvörðun, að höfðu samráði við stéttarfélög starfsmanna.

Með þessu samkomulagi er eytt allri óvissu um störf og réttindi starfsfólks við yfirfærsluna. Fjarðabyggð hefur í viðræðum sínum við ráðuneytið lagt á það megináherslu að tryggja störf og réttindi þess fólks sem starfar á Uppsölum og Hulduhlíð. Vilji sveitarfélagsins stóð til að það yrði gert með því að láta lög um aðilaskipti gilda, en um það náðist ekki samstaða við ráðuneytið. Það samkomulag sem nú er í höfn tryggir starfsfólki sambærileg réttindi og kveðið er á um í lögunum.

Miklu skiptir að sú mikilvæga þjónusta sem rekin er á hjúkrunarheimilunum sé ekki í óvissu og að hagsmunir íbúanna séu tryggðir. Því er það ánægjuefni að Heilbrigðisstofnun Austurlands skuli taka við rekstri heimilanna en stofnunin hefur mikla reynslu af rekstri hjúkrunarrýma. Það er ánægjulegt að samkomulagið sé í höfn og að tekist hafi að tryggja störf og réttindi þess góða starfsfólks sem starfar á hjúkrunarheimilum Fjarðabyggðar. Samkomulagið verður kynnt starfsmönnum hjúkrunarheimilanna eftir páska.

Nánari upplýsingar veitir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar jon.b.hakonarson@fjardabyggd.is

Frétta og viðburðayfirlit