mobile navigation trigger mobile search trigger
09.03.2015

Tillögur starfshóps um sóknarfæri Stöðvarfjarðar

Á meðal þess sem starfshópur um sóknarfæri Stöðvarfjarðar leggur til er að staða ferðaþjónustu og Sköpunarmiðstöðvarinnar verði efld. Hópurinn afhenti bæjarráði Fjarðabyggðar tillögur sínar í dag.

Tillögur starfshóps um sóknarfæri Stöðvarfjarðar

Starfshópur um sóknarfæri Stöðvarfjarðar afhenti í dag bæjarráði Fjarðabyggðar tillögur sínar. Tillögurnar voru kynntar á Stöðvarfirði á almennum íbúafundi fimmtudaginn 5. mars sl.

Á meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að staða ferðaþjónustu verði efld í bæjarkjarnanum, aðstaða Stöðvarfjarðarhafnar verði bætt og að stutt verði við þá athyglisverðu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í gamla frystihúsi staðarins á vegum Sköpunarmiðstöðvarinnar.

Í nóvember sl. setti bæjarráð af stað starfshóp um sóknarfæri Stöðvarfjarðar en í honum sátu Ásta Kristín Sigurjónsdóttir verkefnastjóri hjá Fjarðabyggð ásamt Rósu Valtingojer og Ívari Ingimarssyni.

Markmið starfshópsins voru að vinna margþætta greiningu á atvinnu- og byggðamálum Stöðvarfjarðar ásamt möguleikum svæðisins til að laða til sín fjárfesta, á aukinni fjölbreytni í atvinnulífi og á virkari þátttöku íbúa, sveitarfélags og fyrirtækja í uppbyggingu staðarins.

Helstu verkefni hópsins voru að kortleggja núverandi stöðu, meta sóknarfæri og leggja fram stefnumótandi tillögur til næstu 3 til 5 ára.

Alls fundaði hópurinn átta sinnum á tímabilinu nóvember 2014 til febrúar 2015 og þar af voru haldnir tveir íbúafundir. Einnig var opnu hugmyndaferli haldið gangandi og viðhorfskönnun gerð á meðal íbúa á Stöðvarfirði, brottfluttra og annarra velunnara staðarins. Þá bauð starfshópurinn einnig upp á opnar símalínur og tölvupóstssamskipti á verkefnatímanum.

Fimmtudaginn 5.mars sl. var efnt til opins kynningarfundar á Stöðvarfirði um tillögur hópsins, sem voru samþykktar einróma að umræðum loknum.

Tillögur starfshópsins verða lagðar fyrir bæjarstjórn Fjarðabyggðar 19. mars nk.

Sjá tillögur starfshópsins

Frétta og viðburðayfirlit