mobile navigation trigger mobile search trigger
28.03.2014

Undanúrslitin í blaki - Kvennalið Þróttar komið í úrslit

Þróttur og Afturelding mætast í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna 2014. Þetta varð ljóst eftir að Þróttur vann HK 1-3 í Fagralundi í Kópavogi í gærkvöldi.

Undanúrslitin í blaki - Kvennalið Þróttar komið í úrslit

Þróttur og Afturelding mætast í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna 2014.  Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir átti stórleik fyrir Þróttarastelpur í 1-3 sigri á HK í gærkvöldi í öðrum leik liðanna í undanúrslitum. Heimastúlkur komust yfir í leiknum með sigri í fyrstu hrinu 25-22. Þróttur beit frá sér í annarri hrinunni og vann hana 20-25 og jafnaði leikinn. HK náði frábærri byrjun í þriðju hrinunni, komst strax í 6-2 og svo 11-4. Þróttarastelpur snéru þá leiknum sér í vil og sigruðu hrinuna 18-25.

Þróttur hélt áfram að þjarma að HK sem átti í stökustu vandræðum með sterkar uppgjafir leikmanna Þróttar. Jóna Guðlaug var frábær í sóknarleiknum og varnarleikur hennar á lokasprettinum var frábær. Fjórða hrinan endaði 14-25 og leikurinn Þróttar 1-3.

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir skoraði 27 stig í leiknum í kvöld og Erla Rán Eiríksdóttir skoraði 20 stig.

Fyrsti úrslitaleikur Þróttar og Aftureldingar fer fram 8.apríl kl. 19.30 að Varmá í Mosfellsbæ.

Karlalið Þróttar tapaði gegn Stjörnunni 1-3 í öðrum leik liðanna í Neskaupstað en þriðji leikur liðanna í undanúrslitum karla fer fram mánudaginn 31.mars og hefst kl. 19.30 í Ásgarði í Garðabæ. Sigurliðið mætir HK í úrslitum

Frétta og viðburðayfirlit