mobile navigation trigger mobile search trigger
26.03.2014

Vænleg staða Þróttara í undanúrslitum í blaki karla og kvenna

Fyrstu leikir karla og kvennaliða Þróttar í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í blaki fóru fram í gær og fyrradag en vinna þarf tvo leiki til að komast í úrslitaleikinn

Vænleg staða Þróttara í undanúrslitum í blaki karla og kvenna

Á mánudagskvöldið 24.mars sigraði karlalið Þróttar lið Stjörnunnar í Garðabæ og geta með sigri í kvöld, á heimavelli, tryggt sér sæti í úrslitum.

Fyrsti leikur Þróttar og HK í undanúrslitum kvenna fór síðan fram í gær þriðjudaginn 25.mars í Neskaupstað.  Þróttarar náðu heimaleikjaréttinum með sigri á Aftureldingu um síðustu helgi.  HK stúlkur urðu bikarmeistarar á dögunum en liðin hafa mæst þrisvar sinnum í vetur og Þróttur unnið tvo leiki og HK einn. Allir leikirnir fóru í oddahrinu eða fimm hrinu leiki. Það var því fyrirfram búist við hörkuleik en Norðfirðingar eru þekktir fyrir sterkan heimavöll. Leikurinn var frekar kaflaskiptur en Þróttarar byrjuðu leikinn vel og unnu fyrstu tvær hrinurnar  25-18 og 25-23. Stressið virtist þá aðeins farið að rjátla af  HK stúlkum og komu þær ákveðnar til leiks og pressuðu vel með erfiðum uppgjöfum og lentu Þróttarar í vandræðum í móttöku.  HK vann næstu tvær hrinur 22-25 og 14-25.  Staðan var þá orðin jöfn 2-2 og komu bæði lið brjáluð inn í fimmtu lotu, ákveðin í að vinna leikinn.  Oddahrinan endaði 15-13 fyrir Þrótt og vann Þróttur því leikinn 3-2. Leikurinn hafði þá staðið í 118 mínútur.  Um 200 stuðningsmenn mættu í húsið og hvöttu stelpurnar til dáða auk þess sem um 100 manns horfði á leikinn í beinni útsendingu á http://www.ustream.tv/channel/throtturnesblak

Stigahæstu leikmenn Þróttar voru Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir með 20 stig og Erla Rán Eiríksdóttir með 12 stig.

Frétta og viðburðayfirlit