mobile navigation trigger mobile search trigger
16.01.2015

Sjálfboðaliðastarf starfsfólks Alcoa Fjarðaáls á árinu 2014

Starfsfólk Alcoa Fjarðaáls safnaði rúmum 36 milljónum króna með sjálfboðavinnu á árinu 2014.  Samtals tóku 357 starfsmenn fyrirtækisins þátt í ýmsum einstaklings- og hópverkefnum.

Sjálfboðaliðastarf starfsfólks Alcoa Fjarðaáls á árinu 2014
Meðfylgjandi er mynd frá Eskifirði frá liðnu sumri þar sem starfsmenn Fjarðaáls skiptu um klæðningu á skála Golfklúbbsins. Eins og sjá má fylgdist dróni grannt með vinnunni.

Störf í sjálfboðavinnu í þágu fjölmargra félagasamtaka, klúbba og stofnana vítt og breitt um Austurland voru áberandi mikil á árinu 2014 hjá starfsfólki Alcoa Fjarðaáls. Samtals tóku 357 starfsmenn fyrirtækisins þátt í einstaklings- og hópverkefnum undir merki Samfélagssjóðs Alcoa (Alcoa Foundation) í Bandaríkjunum. Í svokölluðum Bravó-verkefnum söfnuðust 24 mkr., í Action-verkefnum 12,3 mkr. og í verkefnum sem nefnast Alcoans in Motion söfnuðust 246 þúsund króna.

Í Bravó-verkefnunum vann nærri því helmingur starfsmanna, um 200 manns, að fjölbreyttum verkefnum í þágu fimmtíu aðila á Austurlandi, svo sem björgunarsveita, golfklúbba, hestamannafélaga, íþrótta- og tómstundafélaga, skátafélaga og kóra, svo einungis fáir aðilar séu nefndir. Styrkirnir hafa þann tilgang að styðja sjálfboðavinnu einstakra starfsmanna Alcoa fyrir óháð félagasamtök og er þeim úthlutað til aðila þar sem umsækjandi hefur unnið ólaunað starf í að minnsta kosti 50 klst. á ári í þeirra þágu.

13 mkr. til björgunarsveita

Svo dæmi sé tekið af Bravó-verkefnum, þá unnu 37 starfsmenn í þágu sex björgunarsveita og sóttu þeir, hver og einn, um styrk til Samfélagssjóðs Alcoa. Hver styrkur er að upphæð 130 þúsund krónur og fengu björgunarsveitirnar því afhentar 13 milljónir króna frá sjóðnum. Annað dæmi er af Knattspyrnufélagi Fjarðabyggðar sem 16 starfsmenn öfluðu rúmlega tveggja milljóna króna og Skíðafélag Fjarðabyggðar fékk eina milljón króna vegna vinnu sjö starfsmanna Fjarðabyggðar.

Í ham (In Action)

Bravó-styrkir eru, eins og nafnið bendir til, ætlaðir til þess að hylla starfsmenn fyrir ólaunuð störf í þágu félagasamtaka. Action-verkefnin (Alcoans Coming Together in their Neighborhood) eru hins vegar hópverkefni. Unnið var að tíu slíkum verkefnum 2014, þar sem starfsmenn og fjölskyldur þeirra lögðu hönd á plóg í verkefnum fyrir félög sem reiða sig á sjálfboðastarf. Meðal þess sem unnið var að má nefna viðhald á húsnæði sumarbúða Kirkjumiðstöðvarinnar við Eiðavatn og gerð útikennslustofu fyrir skólabörn á Stöðvarfirði.

Á hreyfingu (Alcoans in Motion)

Þriðja tegund styrkja frá  Samfélagssjóði Alcoa kallast „Alcoans in Motion,“ en þá ganga, hlaupa eða synda starfsmenn ákveðna vegalengd í þágu góðs málefnis. Á síðasta ári gekk hópur starfsmanna í Stórurð í Dyrfjöllum til að safna fé fyrir heilabilunardeild HSA á Seyðisfirði, og annar hópur gekk að Opi í Oddsdal til að styrkja aðstoð við börn með geðraskanir á vegum Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað.

Landbótasjóður og Veraldarvinir

Auk þessara verkefna sem Samfélagssjóður Alcoa styrkir hér á landi má geta þess að sjóðurinn kemur einnig að mun stærri verkefnum. Þannig voru t.d. Landbótasjóði Norður-Héraðs afhentar tæpar 10 milljónir króna sl. sumar til að kaupa áburð. Landbótasjóðurinn er að græða upp stór svæði á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar, aðallega gróðurlausa mela og eyra Jökulsár. Þá fengu Veraldarvinir um 3 milljónir króna til stuðnings við verkefni samtakanna á Austurlandi. Veraldarvinir eru íslensk félagasamtök sem vinna að margvíslegum samfélagsverkefnum árið um kring um allt land. Á síðasta ári tóku samtökin á móti um 1.500 erlendum sjálfboðaliðum sem tóku þátt í um 130 verkefnum um land allt. Í Fjarðabyggð unnu um 650 manns á vegum Veraldarverkefna í tvær vikur að samfélagsverkefnum í sveitarfélaginu.

Fréttatilkynning frá Alcoa Fjarðaáli 15. janúar 2015.

 

Nánari upplýsingar veitir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, sími 8437705, netfang: Dagmar.Stefansdottir@Alcoa.com.

 

Um Alcoa

Alcoa Inc. er alþjóðlegt fyrirtæki í fararbroddi á sviði nýsköpunar og framleiðslu mismunandi tegunda léttmálma og verkfræðilausna fyrir fjölþætta atvinnustarfsemi um allan heim. Þannig hefur tækni Alcoa valdið þáttaskilum í þróun alhliða samgönguiðnaðar í lofti, láði og legi auk þess sem þróaðar lausnir Alcoa hafa leitt til mikilla framfara í hönnun og framleiðslu á rafeindatækjum fyrir iðnað og neytendamarkað. Alcoa býður ennfremur umhverfisvænar lausnir fyrir nútímabyggingariðnað, matvæla- og drykkjarvöruiðnað auk einstakra lausna til að auka hagkvæmni í olíu-, gas- og orkuiðnaði. Hjá Alcoa starfa um 59 þúsund manns í 30 löndum að framleiðslu á mismunandi gerðum verðmætra vara úr títaníum, nikkel og áli auk hágæða báxíts, hrááls og súráls. Fáðu frekari upplýsingar á Alcoa.is eða Alcoa.com. Einnig er hægt að fylgja Alcoa á Twitter og Facebook.

 

Frétta og viðburðayfirlit