mobile navigation trigger mobile search trigger
01.02.2020

Ungir og efnilegir leikmenn skrifa undir hjá KFF

Á dögunum skrifaði Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar (KFF) undir samninga við alls 14 leikmenn bæði drengi og stúlkur. Allir leikmennirnir sem skrifuðu undir samninga eru uppaldir hjá félögunum í Fjarðabyggð sem standa að KFF.

Ungir og efnilegir leikmenn skrifa undir hjá KFF
Leikmennirnir 14 sem skrifuðu undir samning við KFF á dögunum, ásamt þjálfurum og forráðamönnum félagsins

Alls skrifuðu tólf leikmenn undir samning við meistaraflokk karla. Sjö af þeim voru að skrifa undir sínu fyrstu samningar en það voru þeir Andri Stefnisson, Arnór Berg Grétarsson, Birkir Ingi Óskarsson, Dagur Þór Hjartarson, Geir Sigurbjörn Ómarsson, Ragnar Þórólfur Ómarsson , Anton Berg Sævarsson. Auk þeirra endurnýjuðu þeir Mikeal Natan Róbertsson, Marinó Máni Atlason, Stefán Bjarki Cekic og Hákon Huldar Hákonarson samninga sína, en þeir hafa allir verið partur af meistaraflokki karla undanfarin ár þrátt fyrir ungan aldur. Síðast en síst framlengdi reynsluboltinn Jóhann Ragnar Benediktsson samning sinn við KFF, en hann hefur verið einn mikilvægasti hlekkur liðsins um ára raðir.

Þá skrifuðu tvær ungar og efnilegar stúlkur, María Nicole Lecka og Freyja Karín Þorvarðardóttir, undir sína fyrstu samninga við meistaraflokk kvenna. Þær eru báðar fæddar árið 2004 en hafa, þrátt fyrir ungan aldur, æft og spilað undanfarna mánuði með meistaraflokki kvenna.

Við undirskrift höfðu þjálfarar meistaraflokka karla og kvenna, þeir Dragan Stojanovic og Björgvin Karl Gunnarsson, orð á því að það væri alltaf gríðarlega ánægjulegt að skrifa undir samninga við unga og efnilega leikmenn. Í sama streng tók formaður KFF, Helgi Freyr Ólason; „ Það er lykilatriði að ungir og uppaldir leikmenn fái tækifæri á að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokk með sínu heimaliði. Það er afar ánægjulegt að sjá að gott starf yngri flokka aðildarfélaga er að skila sér upp í meistarflokk“.  

Frétta og viðburðayfirlit