mobile navigation trigger mobile search trigger
12.05.2022

Áframhald tryggt á farsælu samstarfi grunnskólanna í Fjarðabyggð og Verkmenntaskóla Austurlands

Í gær rituðu Jón Björn Hákonarson, bæjastjóri Fjarðabyggðar og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra undir yfirlýsingu þess efnis að ráðuneytið komi að samstarfsverkefni Fjarðabyggðar og Verkmenntaskóla Austurlands sem miðar að því að auka áhuga grunnskólanemanda í Fjarðabyggð á iðn- og tækninámi.

Áframhald tryggt á farsælu samstarfi grunnskólanna í Fjarðabyggð og Verkmenntaskóla Austurlands
Frá undirritun yfirlýsingarinnar í VA í gær. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Standandi fyrir aftan Sigurður Ólafsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar og Þóroddur Helgason, fræðslustjóri.

Síðastliðið haust tóku Fjarðabyggð og Verkmenntaskólinn upp samstarf sem miðar að því að auka áhuga nemenda í efstu bekkjum grunnskóla á iðn- og tæknigreinum. Með verkefninu gefst grunnskólanemendum í Fjarðabyggð tækifæri til að taka fjölbreytta valáfanga í Verkmenntaskólanum sem meðal annars auðveldar þeim að velja sér nám í framhaldsskóla í takt við áhuga þeirra og framtíðarsýn.  Með þessu verkefni fá nemendur góða kynningu á verknámi sem getur stuðlað að því að fleiri nemendur velji verknám sem framhaldsnám.

Með yfirlýsingunni sem ritað var undir í dag mun ráðuneytið styðja fjárhagslega við Verkmenntaskóla Austurlands til að gera skólanum kleift að halda áfram með samstarfverkefnið haustið 2022, og næstu þrjú ár.

Mennta- og barnamálaráðherra og Fjarðabyggð eru sammála um mikilvægi þess að formlegt samstarf milli framhaldsskóla og grunnskóla sé til staðar. Markmið slíks samstarfs sé bæði að draga úr skilum milli skólastiga og auðvelda grunnskólanemendum náms- og starfsval til framtíðar.

Frétta og viðburðayfirlit