mobile navigation trigger mobile search trigger
04.11.2019

Bókun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar á fundi 31.október 2019, vegna fimmtán ára samgönguáætlunar 2020 - 2034 og fimm ára aðgerðaáætlunar 2020 - 2024   

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur komið eftirfarandi athugasemdum á framfæri í samráðsgátt stjórnvalda, vegna fimm ára aðgerðaráætlun í samgöngumálum og fimmtán ára samgönguáætlun. 

Bókun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar á fundi 31.október 2019, vegna fimmtán ára samgönguáætlunar 2020 - 2034 og fimm ára aðgerðaáætlunar 2020 - 2024   

Fyrir það fyrsta mótmælir bæjarstjórn Fjarðabyggðar því að framkvæmdir við Suðurfjarðaveg, þjóðveg 1 milli Reyðarfjarðar og Breiðdals, séu settar á þriðja framkvæmdatímabil 2030 - 2034. Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa margoft bent á þá miklu þörf að bæta umferðaröryggi á þessum vegi, enda eru margir kaflar hans mjög hættulegir samkvæmt alþjóðlegum umferðarstöðlum. Sérstaklega er þörf á endurbótum í sunnanverðum Fáskrúðsfirði ásamt botni Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, þar sem eru þrjár einbreiðar brýr. Með sameiningu Fjarðabyggðar er Suðurfjarðarvegur einnig orðinn þjóðvegur í þéttbýli sem um fer mjög mikil umferð fólksflutningabifreiða vegna atvinnu- og skólasóknar, vöruflutningar með afurðir tengdir sjávarútvegi og laxeldi, sem eru hluti af grunnatvinnuvegum fjórðungsins ásamt einkabifreiðum sem hefur fjölgað mjög í takt við ferðamennsku. Því þolir enga bið að áðurnefndir kaflar verði lagfærðir og verða lagfæringar að vera fyrr á ferð en nú er ætlað.

Þá ítrekar bæjarstjórn Fjarðabyggðar að nauðsynlegt er að ráðast í rannsóknir á hringtengingu með jarðgöngum á Austurlandi strax á næsta ári og þeir kostir sem nú eru nefndir í skýrslu starfshóps um Seyðisfjarðargöng verði rannsakaðir samhliða til að flýta þeim framkvæmdum eins og kostur er. Ljóst er að hringtenging samfélagsins á Austurlandi er sá kostur sem mun skipta sköpum í framtíð byggðar á Austurlandi og því mikilvægt að þær framkvæmdir komist sem fyrst á stað.

Þá vekur það nokkra athygli að í Fimmtán ára áætluninni, þar sem taldar eru upp ferjuleiðir sem eru hluti af grunnnetinu, er ekki talin upp Mjóafjarðarferjan. Vonar bæjarstjórn að þetta sé vísbending um samgöngumál Mjóafjarðar verði leyst með öðrum hætti er líður á tímabil samgönguáætlunar, en af sjó eins og nú er stærstan hluta ársins. Sé það ekki raunin verði brugðist við með öðrum hætti, þar sem landsamgöngur við Mjóafjörð eru ófærar lungann af árinu og þrátt fyrir að íbúum þar hafi fækkað, þá eiga þeir skýlausan rétt á þeirri grunnþjónustu sem samgöngur eru.

Einnig leggur bæjarstjórn Fjarðabyggðar þunga áherslu á að Norðfjarðarflugvöllur komi inn í Samgönguáætlun sem sjúkraflugvöllur eins og hann er í dag, vegna staðsetningar sinnar við Umdæmissjúkrahús Austurlands á Norðfirði. Bæjaryfirvöld og fyrirtæki á staðnum fjármögnuðu endurbætur á flugvellinum til helminga á móti ríkisvaldinu fyrir nokkrum árum til að hann stæðist lendingarkröfur sem sjúkraflugvöllur og til að ljúka því að hann geti sinnt því hlutverki með sóma, þarf að koma til uppsetning nýrra lendingarljósa. Það er því krafa sveitarfélagsins að til þeirrar framkvæmdar komi fé á fimm ára aðgerðaráætluninni enda yrði slíkt bæði til mikillar styrkingar við sjúkrahúsþjónustu á Austurlandi, ásamt sparnaði í sjúkraflutningum innan svæðisins.

Einnig vill bæjarstjórn Fjarðabyggðar vekja athygli samgönguyfirvalda, í tengslum við hugmyndir um veggjöld í jarðgöngum, að íbúar Fjarðabyggðar í suðurhluta sveitarfélagsins þurfa að fara í gegnum tvenn jarðgöng - Fáskrúðsfjarðargöng og Norðfjarðargöng - er þeir sækja sjúkrahúsþjónustu og framhaldskóla á Norðfirði. Fjarðabyggð er eitt atvinnu- og þjónustusvæði og slík gjaldtaka er því aukaskattlagning á íbúa þess sveitarfélags og við það getur bæjarstjórn Fjarðabyggðar illa unað. Verði ákvörðun um slíka gjaldtöku engu að síður að veruleika er nauðsynlegt að menn sjái þess merki að hún skili sér í auknum samgöngubótum í sveitarfélaginu í nútíð en ekki í langri framtíð.

 

Frétta og viðburðayfirlit