mobile navigation trigger mobile search trigger
08.11.2023

Fagna árangri barnvænna sveitarfélaga

Bæjar- og sveitarstjórar víðs vegar að af landinu tóku þátt í fundi og umræðum með mennta- og barnamálaráðherra. Bæjar- og sveitarstjórar sem vinna að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, með þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög, fjölmenntu á ráðstefnu UNICEF og mennta- og barnamálaráðuneytisins um verkefnið í Björtuloftum Hörpu 2. nóvember s.l.

Fagna árangri barnvænna sveitarfélaga
Bæjar- og sveitarstjórar í Hörpu í gær ásamt Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi. Mynd/Gerður

Viðburðurinn var vel heppnaður en markmið hans var meðal annars að fagna þeim ávinningi sem náðst hefur um land allt með innleiðingu verkefnisins, þétta raðir stjórnenda sveitarfélaganna sem taka þátt og ræða mikilvægt hlutverk Barnvænna sveitarfélaga í innleiðingu nýrra laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.  Í heildina tóku bæjar- og sveitarstjórar 18 sveitarfélaga þátt í viðburðinum, ásamt Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, og Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra. Sérstakur gestur var Páll Ólafsson, framkvæmdastjóri Barna- og fjölskyldustofu. 

Á dagskrá ráðstefnunnar voru meðal annars kynningar á fyrirmyndarverkefnum Barnvænna sveitarfélaga, auk þess sem stjórnendur sveitarfélaganna tóku þátt í hringborðsumræðum með framkvæmdastjóra UNICEF og mennta- og barnamálaráðherra um verkefnið.  Umræður hringborðsins fólumst meðal annars í samtali um með hvaða hætti sveitarfélögin geti unnið enn betur saman að réttindum og velferð barna auk þess sem mikil umræða myndaðist um sóknarfærin sem felast í því að innleiða Barnvæn sveitarfélög og farsældarlögin samhliða.

Í erindi sínu á ráðstefnunni fagnaði mennta- og barnamálaráðherra þeim árangri sem náðst hefur með innleiðingu verkefnisins frá því það hófst, en í dag búa ríflega 50% barna á grunnskólaaldri í sveitarfélögum sem ýmist eru, eða vinna að því að verða, Barnvæn sveitarfélög. 

„Barnvæn sveitarfélög eru einstakt verkefni sem hefur blómstrað síðustu 7 ár, fyrir tilstilli þeirra metnaðarfullu sveitarfélaga er taka þátt í verkefninu og hlúa að réttindum barna og gera þau að veruleika alla daga. Það er ekkert stjórnsýslustig sem skiptir meira máli fyrir farsæld barna en sveitarfélög og þátttaka þeirra í innleiðingu Barnasátmálans er skýr yfirlýsing um forgangsröðun í þágu farsældar, “ sagði Ásmundur Einar Daðason í erindi sínu.

Þátttaka í ráðstefnunni var mjög góð og ljóst að markmið fundarins um að þétta raðir stjórnenda, opna augu þeirra fyrir enn frekari tækifærum verkefnisins og auka samtakamátt heppnaðist vel. Ljóst var að fundargestir fóru frá borði full endurnýjuðum eldmóði fyrir réttindum barna og tækifærunum fram undan líkt og lesa má nánar um hér fyrir neðan í yfirlýsingu þeirra sem samþykkt var í lok fundar í gær.

YFIRLÝSING FUNDAR BÆJARSTJÓRA BARNVÆNNA SVEITARFÉLAGA

Samþykkt í Hörpu, 2. nóvember 2023 

Við, bæjar- og sveitarstjórar þeirra sveitarfélaga sem vinna að því að öðlast viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag UNICEF, lofum að halda áfram að halda réttindum allra barna á lofti í gegnum verkefnið Barnvæn sveitarfélög.

Í þessu skyni erum við sammála um að í öllum sveitarfélögum sé mikilvægt að tryggja:

  • Fræðslu um réttindi barna fyrir starfsfólk og börn
  • Góðar þátttökuleiðir fyrir börn þannig að þau geti haft áhrif á samfélagið sitt
  • Sértækan stuðning fyrir viðkvæma hópa barna
  • Stuðla að barnvænni nálgun alls starfsfólks í störfum sínum þannig að þau geri sér grein fyrir áhrifunum sem þau hafa á börn.

Við, bæjar- og sveitarstjórar, munum leggja okkur sérstaklega fram um að skapa samstöðu og samvinnu á meðal alls starfsfólks í okkar sveitarfélögum um verkefnið. Það gerum við með því að:

  • Kynna þau tækifæri sem felast í verkefninu sem öll börn njóta góðs af
  • Minna á mikilvægan rétt barna til að fá hlustun og hafa áhrif 
  • Benda á samlegðaráhrif verkefnisins með innleiðingu farsældarlaganna og hvetja til þess að þau séu nýtt
  • Hvetja starfsfólk okkar áfram og minna það á þau góðu áhrif sem þau hafa með störfum sínum.

Að þessari yfirlýsingu standa:

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, Sigurjón Andrésson, sveitarstjóri Hornafjarðar, Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundafjarðar, Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar, Ólafur Þór Ólafsson, staðgengill sveitarstjóra Skagastrandar, Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraness, Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar, Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

UM BARNVÆN SVEITARFÉLÖG

Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Verkefnið, sem byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative, hefur verið innleitt víða um heim en innleiðing þess hófst á Íslandi árið 2016.   

Innleiðing verkefnisins byggir á samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið, en UNICEF á Íslandi fer með umsjón verkefnisins. Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ætlunin er að íslensk stjórnvöld og öll sveitarfélög á Íslandi hafi á næsta áratug hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmálans og tileinkað sér barnaréttindanálgun í sínum verkefnum, stefnumótun og ákvörðunum. 

Alls taka 23 sveitarfélög þátt í verkefninu, vítt og breytt um landið. Sveitarfélögin eru mislangt á veg komin með innleiðingu verkefnisins, en eiga það öll sameiginlegt að forgangsraða innleiðingu réttinda barna í starfsemi sinni. Sveitarfélögin sem taka þátt í verkefninu eru: Akureyri, Kópavogur, Hafnarfjörður, Reykjanesbær, Garðabær, Mosfellsbær, Borgarbyggð, Akranes, Hornafjörður, Múlaþing, Vopnafjörður, Fjarðabyggð, Strandabyggð, Skagaströnd, Svalbarðsströnd, Vogar, Seltjarnarnes, Ölfus, Hrunamannahreppur, Rangárþing eystra, Grundarfjörður, Húnaþing vestra og Hvalfjarðarsveit.

Fleiri myndir:
Fagna árangri barnvænna sveitarfélaga
Fagna árangri barnvænna sveitarfélaga

Frétta og viðburðayfirlit