mobile navigation trigger mobile search trigger
12.01.2015

Fjölmennur fundur um náttúrupassann

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, efndi til kynningar- og umræðufundar um náttúrupassann á Hótel Héraði í dag, eitt heitasta mál ferðaþjónstunnar. Þessi fimmti fundur í fundarröð ráðherrans um landið var vel sóttur og komu fundargestir víða að af Austurlandi.  

Fjölmennur fundur um náttúrupassann
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, kynnti náttúrupassann í framkvæmd á fjölmennum fundi á Hótel Héraði í dag.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, efndi til kynningar- og umræðufundar um náttúrupassann á Hótel Héraði í dag. Fundurinn er sá fimmti í fundarröð ráðherrans um landið og var vel sóttur hvaðanæva að af Austurlandi.  

Í máli sínu lagði Ragnheiður Elín m.a. áherslu á að með náttúrupassanum væri verið að bregaðst við bráðavanda sem ör fjölgun ferðamanna á undanförnum hefði haft í för með sér. Brýnt væri að svara stóraukinni fjárfestingaþörf í innviðum og stuðla að sjálfbærri þróun innan ferðaþjónustunnar.

Náttúrupassinn er að sögn ráðherra almenn, einföld og gagnsæ leið til að fjármagna þessa mikilvægu uppbyggingu og jafnframt sanngjörn í ljósi meginreglunnar um að sá borgi sem njóti. Hvað þessi atriði varðar, sé hann enn fremur eina færa leiðin.

Undir lokin þakkaði ráðherra góðan fund og uppbyggilegar umræður. Góðar ábendingar hefðu komið fram, sem hafðar yrðu til hliðsjónar við endanlega úrvinnslu málsins.

Auk fundarins, sætti ráðherra lagi og kynnti sér ýmis málefni ofarlega á baugi ferðaþjónustunnar á Austurlandi, s.s. Áfangastaðinn Austurland, verkefni sem áfangastaðarhönnuðurinn Daniel Byström vinnur nú að á vegum Ferðamálasamtaka Austurlands í samstarfi við Austurbrú.

Frétta og viðburðayfirlit